Bónorð á Eyjafjallajökli

Mynd með færslu
 Mynd:

Bónorð á Eyjafjallajökli

10.08.2012 - 12:56
Áhrifa eldgossins í Eyjafjallajökli gætti víða og gætir enn. Segja má að gosið hafi tendrað bál í hjarta tveggja ungmenna sem eru frá sitthvoru heimshorninu.

Það var mikilfenglegt útsýnið þegar Kay Kuehne frá Þýskalandi bað um hönd unnustu sinnar, Catarinu Echeverri frá Kólumbíu í vikunni. Þau voru þá stödd uppi á Eyjafjallajökli.

Segja má að jökullinn sé örlagavaldur í lífi þeirra. Fyrir um tveimur og hálfu ári varð Catarina strandaglópur í Berlín vegna þess að öskustrókur hamlaði öllu flugi í Evrópu. Þar hitti hún Kay.

Catarina hafði verið á ferðalagi með vinkonu sinni í Evrópu. Frá Berlín var för þeirra heitið til Feneyja en þá gripu örlögin inn í. Vegna misbókunar í flugi komst aðeins önnur þeirra í flug sem þær áttu pantað. Catarina varð eftir í Berlín og fékk inni hjá ungum þýskum manni sem bauð ferðalöngum gistingu á sófa sínum.

Catarina átti að fljúga morguninn eftir en ílengdist í staðinn hjá unga manninum.