Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bólusett við ebólu í fyrsta sinn

31.05.2018 - 12:42
epa04601022 A Liberian nurse administers an experimental Ebola vaccine at the beginning of a trial program at the Redemption Hospital in New Kru Town, outside Monrovia, Liberia, 02 February 2015. Liberia started the first large-scale trial of experimental
Ung kona í Líberíu tekur þátt í tilraun á bóluefni gegn ebólu árið 2015 Mynd: EPA
Heilbrigðisyfirvöld í Austur-Kongó nota nú bólusetningu fyrst ríkja í þeim tilgangi að stemma stigu við útbreiðslu ebólu. Bóluefni gegn ebóluvírus hefur verið í þróun síðan 2014 eftir að mannskæður faraldur braust út í Vestur-Afríku árið 2013. Faraldurinn dró mörg þúsund manns til dauða á árunum 2013 til 2016.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin staðfesti tvö ebólusmit í strjálbýlu héraði í norðvesturhluta landsins 8. maí. Fyrsta tilfellið í þéttbýli greindist í hafnarborginni Mbandaka í síðustu viku. Allls hafa nú 54 tilvik greinst og 25 látist.Yfirvöld í Austur-Kongó eru bjartsýn á að með markvissri bólusetningu takist að afstýra öðrum faraldri. Margir óttast þó að vantraust almennings á vestrænni læknisfræði muni hindra vinnu heilbrigðisstarfsfólks.

„Hin viðurkennda meðferð við ebólu er ekki samþykkt af almenningi,“ sagði Jessica Ilunga, fulltrúi heilbrigðisráðuneytis Austur-Kongó, í samtali við fréttastofu Vox.

Nauðsynlegt er að einangra fólk sem smitast hefur af ebólu til að forðast útbreiðslu sjúkdómsins. Slík meðferð á sjúklingum samræmist hins vegar illa þeim hefðbundnu lækningum sem margir Kongóbúar eru vanir.

Í afskekktari landshlutum ríkir einnig mikið vantraust í garð utanaðkomandi aðila, og sérstaklega vestræns auðvalds.

Bóluefnið rVSV-ZEBOV, sem notað er í Austur-Kongó, er framleitt af bandaríska lyfjafyrirtækinu Merck. Allar rannsóknir á efninu hafa gefið afar jákvæðar niðurstöður en þetta er í fyrsta skipti sem bóluefnið er notað utan tilraunastofu. 

„Fólk hefur heyrt að þetta bóluefni sé enn á tilraunastigi og heldur að við séum að fara að prófa á því ókennileg lyf. Þess vegna er það hrætt. Við höfum því verið að útskýra að virkni bóluefnisins hafi verið sannreynd; það hafi einfaldlega ekki verið markaðsett ennþá. Það er mikilvægt að fólk skilji það.“

Sérfræðingar hafa ítrekað mikilvægi áframhaldandi fræðslu um smitleiðir sjúkdómsins. Frá bólusetningu getur tekið allt að tíu daga að byggja upp ónæmi fyrir vírusnum. Sé fólk ekki vel upplýst um þetta ferli geti það leitt til þess að bólusettir einstaklingar smitist og almenningur missi trú á virkni bóluefnisins.

400 manns hafa nú verið bólusettir. Enn sem komið er hefur enginn hafnað bólusetningu, sagði framkvæmdarstjóri neyðarteymis Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í samtali við CNN.

Hann staðfesti einnig að í áætlun væri að hefja takmarkaða notkun lyfja á tilraunastigi.

„Það er auðvitað flókið að framkvæma lyfjaprófun í þessum aðstæðum. En ef við gerum það ekki núna munum við aldrei komast að því hvaða lyf við getum notað gegn vírusnum.”

Þar sem aukaverkanir bóluefnisins eru enn ekki vel þekktar, og takmarkað upplag til af því í landinu, er aðeins áætlað að bólusetja þá sem talið er að eigi smit á hættu, m.a. heilbrigðisstarfsfólk og þá sem hafa komist í snertingu við smitaða.

Fyrsti ebólufaraldur sem vitað er af braust út 1976 í grennd við Ebóluánna í norðurhluta Austur-Kongó, og dregur vírusinn nafn sitt af henni.