Bólusetning eða sekt í New York

10.04.2019 - 01:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Borgarstjórinn í New York skipar íbúum Williamsburg í Brooklyn hverfi að láta bólusetja sig gegn mislingum. Skipuninni er beint til íbúa fjögurra póstnúmera í hverfinu, sem eru að mestu byggð rétttrúnaðargyðingum. Sumir íbúanna eru andvígir bólusetningum af trúarlegum ástæðum, þó hvergi finnist neitt í trúarritum gyðinga eða ráðleggingum yfirvalda í ríkinu sem mælir gegn bólusetningum.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, sagði tíma til kominn að sýna hörku. AFP fréttastofan hefur eftir honum að hægt sé að koma hratt í veg fyrir frekari útbreiðslu. Auk skipunarinnar verður þeim sem ekki hafa fengið MMR bóluefnið eða geta ekki sýnt fram á að þeir séu ónæmir fyrir mislingum gert að greiða þúsund dollara sekt, jafnvirði um 120 þúsund króna.

De Blasio sagði einnig að skólar og leikskólar í hverfum réttrúnaðargyðinga gætu átt yfir höfði sér sektir og jafnvel lokanir ef þeir halda áfram að taka við nemendum sem eru óbólusettir gegn mislingum. Hann hvatti alla, sérstaklega íbúa þeirra svæða þar sem mislingar hafa breiðst út, að fólk láti bólusetja sig með MMR bóluefninu til þess að vernda börnin sín, fjölskyldur og samfélag. „Það er engin spurning að bóluefni eru örugg, áhrifarík og bjarga lífum," hefur AFP eftir de Blasio.

Stutt er síðan Rockland-sýsla, nærri New York borg, lýsti yfir 30 daga neyðarástandi vegna mislinga. Þar hafa nærri 170 smitast að sögn yfirvalda.
Líkt og í flestum ríkjum Bandaríkjanna er gerð krafa í New York um að börn á skólaaldri hafi verið bólusett við helstu sjúkdómum. Þar til nú hefur New York ríki veitt undantekningar vegna heilbrigðisástæðna og á trúarlegum grundvelli.

Árið 2000 var því lýst yfir að mislingum hafi verið útrýmt í Bandaríkjunum. Það sem af er þessu ári hefur yfirvöldum borist tilkynningar um nærri 500 tilfelli í 19 ríkjum Bandaríkjanna. Aðeins árið 2014 hafa fleiri tilfelli verið tilkynnt, eða 667 allt árið. Endurkomu mislinga má að miklu leyti rekja til hóps fólks sem taldi sjálfu sér og öðrum trú um að bólusetningar væru hættulegar, og valdi öðrum sjúkdómum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi