
Þátttaka barna í bólusetningum fyrir barnaveiki, stífkrampa, kíghósta, heilahimnubólgu og lömunarveiki hefur verið 95 prósent hjá þriggja mánaða börnum, 93 prósent hjá fimm mánaða börnum og 88 prósent hjá tólf mánaða gömlum börnum. Þá var þátttaka í bólusetningum fyrir mislingum, hettusótt og rauðum hundum 90 prósent hjá 18 mánaða gömlum börnum.
Þórólfur Guðnason segir að til þess að unnt sé að koma í veg fyrir að faraldrar brjótist út hér þurfi þátttakan í bólusetningum að vera í kringum 90 prósent og til dæmis fyrir mislinga þurfi hlutfallið að vera hærra. „En sem betur fer hefur það ekki gerst nema fyrir nokkrum árum þá kom hérna lítill hettusóttarfaraldur og þetta getum við séð hvað varðar aðra sjúkdóma.“
Aðalástæðuna telur Þórólfur vera að börnin séu veik þegar á að bólusetja þau og svo gleymist það. Á síðustu árum hefur einnig færst í vöxt að fólk vilji ekki láta bólusetja börnin sín. „97 prósent fólks hér á landi er hlynnt bólusetningum svo að ég held að það sé ekki mikið vandamál hér. Sem betur fer,“ segir Þórólfur Guðnason.