Bóluefni við inflúensu uppurið í landinu

23.01.2019 - 12:33
Skjáskot
 Mynd: RÚV
Bólusetningar við inflúensu hafa aldrei verið fleiri, allir 65.000 skammtar sem komu til landsins eru búnir. Flensan virðist ekki enn hafa náð sér á flug hér á landi, að mati Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis.

„Hún byrjaði nú nokkuð snemma að láta á sér kræla en hún hefur ekkert almennilega náð sér á flug eftir þeim mælikvörðum sem við höfum. Jafnvel virðist aðeins hægari á sér en var í fyrra og undanfarin ár. En þetta er svona rétt að byrja,“ segir Þórólfur. Þá segir hann að inflúensan virðist vægari í ár og að bólusetningar virðist virka betur en í fyrra. 

Hefur fólk verið duglegt að láta bólusetja sig?

„Já það hafa mjög margir verið bólusettir núna í haust og seldust allir skammtar sem að okkur bárust, um 65 þúsund skammtar. Og það er svona álíka mikið og í fyrra, heldur meira þó. Þannig að það virðist vera að almenningur sé mjög áhugasamur um bólusetningar. En við leggjum áherslu á að það séu sérstaklega einstaklingar með undirliggjandi áhættusjúkóma sem að verði bólusettir. Því að þeir geta farið verst út úr inflúensunni.“ 

Kannt þú einhverjar skýringar á því afhverju svona margir sem vilja láta bólusetja sig við inflúensu?

„Nei ég veit það ekki, ég hef ekki fullar skýringar á því. Kannski er tiltrú almennings á bólusetningunni að aukast og það er bara gott mál.“  

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi