Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bolsonaro fer ekki á Amazon-ráðstefnu

03.09.2019 - 06:56
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, ætlar að sleppa ráðstefnu ríkjanna sem sem Amazon-regnskógurinn er í samkvæmt læknisráði. Forsetinn verður að vera á fljótandi fæði yfir helgina vegna skurðaðgerðar sem hann fer í í næstu viku.

Talsmaður forsetans, Otavio Rego Barros, tjáði fjölmiðlum í gær að Bolsonaro verði á fljótandi fæði frá föstudeginum, sama degi og ráðstefnan verður haldin í Kólumbíu. Ferðalög verða því ekki uppi á borðum, nema nauðsyn krefji. Brasilíustjórn íhugar að senda staðgengil, eða að biðja leiðtoga hinna ríkjanna að fresta ráðstefnunni.

Bolsonaro fer í kviðslitsaðgerð á sunnudag. Það verður fjórða skurðaðgerðin sem þarf að gera á honum síðan hann var stunginn fyrir nærri ári síðan. Læknar segja hann þurfa um tíu daga til að jafna sig eftir aðgerðina. 

Bolsonaro sagði í gær að hann ætli að mæta á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna síðar í mánuðinum, hvernig sem ástand hans verður. Sagðist hann ætla að mæta þó hann yrði í hjólastól eða það yrði að bera hann inn. Þangað vill hann fara til þess að verja aðgerðir stjórnar hans í Amazon. Samkvæmt hefð sem hefur myndast á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna flytur leiðtogi Brasilíu fyrstu ræðu þingsins.