Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bollinn á 100 kall í listaverki á Austurvelli

Mynd: Window Gallery / Window Gallery

Bollinn á 100 kall í listaverki á Austurvelli

07.06.2018 - 14:28

Höfundar

Það er ekki hægt að fá kaffi á 100 kall víða um miðbæinn en á Austurvelli stendur lítill, 4 fermetra skúr sem rétt rúmar eina kaffivél og barstól og ber nafnið Espressobarinn. Hann er hluti af Listahátíð í Reykjavík og er hluti af listinni fólginn í því hversu lágt verðið er.

„Við erum búnir að vera í samtali um þetta í þrjú, fjögur ár að opna einhvern svona stað. Hittast og teikna upp mublur, skissa hönnun og pæla mikið í þessu,“ segir Ívar Glói Gunnarsson sem hannaði kaffiskúrinn í félagi við Egil Sæbjörnsson en verkefnið er unnið í samstarfi við Window Gallery á Hverfisgötu. „Svo fengum við þetta tækifæri frá Listahátíð og unnum þá inn í þetta pínulitla rými, sem er bara fjórir fermetrar, með þá hugmynd að gera ódýran bolla fyrir fólkið,“ bætir Ívar við.

Mynd með færslu
 Mynd: Window Gallery
Egill Sæbjörnsson afgreiðir kaffibolla.

Skúrinn er í raun eins konar listaverk og innsetning sem verður í gangi í þær tvær vikur sem Listahátíð í Reykjavík stendur yfir. Ívar segir viðskiptamódelið myndi ekki ganga upp miðað við hefðbundnar rekstrarlegar forsendur, heldur þurfi styrki og sjálfboðaliða til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. „Við erum að reyna að búa til eitthvað sem er fyrir utan raunveruleika þess að vera á Íslandi, þegar þú stoppar á horninu og borgar eina evru fyrir gott kaffi sem tekur örfáar mínútur að fá í hendurnar.“ Þá segir Ívar að framtakinu hafi verið gríðarvel tekið. „Fólk er mjög ánægt og það myndast stemmning sem maður þekkir ekki alveg á Íslandi. Stundum ætlar maður að fara að loka en nær því ekki fyrr en hálftíma seinna því það er svo mikið af fólki að spjalla fyrir utan og hafa það næs.“

Rætt var við Ívar Glóa Pétursson í Síðdegisútvarpinu.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Risaeðlur vöktu bæði ótta og aðdáun

Klassísk tónlist

Opnunartónleikar Listahátíðar í Hörpu

Klassísk tónlist

Tónlistin fyllir rýmið milli línanna

Tónlist

Bill Murray – trúðurinn með tregann í augunum