Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Bóksala um jólin fram úr væntingum

Bækur tilnefndar til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2015.
 Mynd: Kristín Viðarsdóttir - Bókmenntaborgin

Bóksala um jólin fram úr væntingum

27.12.2015 - 12:05

Höfundar

Bóksala um jólin gekk vel og fór fram úr væntingum bókaútgefenda, og þá var áberandi hversu vinsælar ljóða- og barna- og unglingabækur voru í jólapakkana þetta árið.

Mikil spenna ríkir meðal bókaútgefanda um hvort Yrsa Sigurðardóttir nái toppsæti metsölulistans af Arnaldi Indriðasyni, þegar bóksöluárið verður gert upp eftir áramót.

Bækur hafa jafnan verið vinsælar jólagjafir hjá landanum í gegnum tíðina, og engin breyting varð á því þessi jólin. Síðustu vikuna fyrir jól tróndi skáldverkið Sogið eftir Yrsu Sigurðardóttur, á toppi bóksölulista Félags íslenskra bókaútgefenda, en fast á hæla hennar kom skáldsagan Þýska húsið eftir Arnald Indriðason. Barnabókin Mamma klikk! eftir Gunnar Helgason var svo þriðja söluhæsta bókin í aðdraganda jóla. Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda segir bóksölu um jólin hafa gengið vel og farið fram úr björtustu vonum.

„Salan dreifðist í ár á mjög marga titla. Það var engin einn sem svona dúkkaði upp undir öllum jólatrjám landsmanna heldur dreifðist salan vel og það er alltaf góðs viti, því þá er minna um skil og skipti og fleiri njóta. En við höfum nú kannski ekki endanlegar tölur í raun fyrr en að árið er að fullu liðið, og í raun ekki tölur um hvernig bóksala hefur gengið á árinu fyrr en tölur Hagstofunnar liggja fyrir í febrúar,“ segir Bryndís í samtali við fréttastofu.

Áberandi góð sala á barna- og unglingabókum

Hún segir það hafa verið áberandi hversu vel ljóðabækur seldust fyrir jólin sem og barna- og unglingabækur, enda úrvalið mikið af góðum titlum í þessum flokki bókmennta. Þá hafi verið ánægjulegt að sjá innreið yngri kynslóða skálda inn á markaðinn. Hún segir að nú bíði flestir spenntir eftir því að sjá hvort Yrsa eða Arnaldur komi til með að eiga mest seldu bók ársins.

„En svo voru auðvitað bara þessi reynsluboltar; Jón Kalman, Einar Már, Ólafur Jóhann, nú Jón Gnarr átti fína spretti og Hallgrímur Helgason með frábæra bók þannig að þetta voru bara mjög sterk jól,“ segir Bryndís. Hún segir gott hljóð í bóksölum. „Og þjóðinni allri vonandi, því það er hennar fengur og fjársjóður að fá þessi fínu skáldverk og fræðibækur og ljóðabækur og barnabækur í hendurnar á þessum góðum tímum sem jólin eru.“