Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Bókasafn án bóka

Mynd með færslu
 Mynd:

Bókasafn án bóka

28.11.2013 - 20:55
Öld rafbókanna er gengin í garð að mati stofnanda fyrsta bókasafnsins í Bandaríkjunum sem er algerlega rafrænt. Æ fleiri Bandaríkjamenn velja rafbækur fram yfir prentaðar bækur.

Ef ekki væri skiltið fyrir utan benti fátt sem til þess að í þessari byggingu sé bókasafn. Á meðan bókasöfn um heim allan leitast við að bæta bókum á rafrænu formi við hefðbundinn safnkost sinn, hefur þetta bókasafn í San Antonio í Bandaríkjunum gengið skrefinu lengra. Hér er ekki ein einasta áþreifanleg bók til útláns, aðeins rafbækur, sem lánþegar lesa svo í lesbrettum eða tölvum.

Yfirbókavörður á Biblotech-bókasafninu svokallaða segir, að með þessu geti bókaverðir frekar einbeitt sér að samskiptum við viðskiptavini og nærsamfélag, og losnað við að þurfa að afgreiða bækurnar.

Ekki veitir af því, þegar flestir lánþegar þurfa kennslustund í notkun þessa nýstárlega safnakerfis áður en hægt er að fá lánaða bók í fyrsta sinn.
Rafbækur eru í mikilli sókn í Bandaríkjunum. 23% Bandaríkjamanna segjast nú lesa rafbækur reglulega sem er talsverð aukning frá 16% fyrir ári. Jafnframt fækkar þeim sem lesa prentaðar bækur. 

Stofnandi safnsins, Nelson Wolff, var áður aðsópsmikill bókasafnari en virðist nú vera afhuga pappírnum. Hann segir þeim sem ekki kæra sig um lesbrettin og vilja áfram halda í bækurnar, að stíga inn í nútímann.