Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Bók Arnaldar seldist mest - einu sinni enn

Mynd með færslu
 Mynd:

Bók Arnaldar seldist mest - einu sinni enn

26.12.2014 - 19:24
Arnaldur Indriðason á mest seldu bók ársins, líkt og undanfarin fjórtán ár. Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda. segir að bóksala fyrir jólin hafi gengið mjög vel.

„Ég held að salan hafi verið með prýðilegasta móti í ár,“ segir Egill. „Mér sýnist þetta hafa verið sannkölluð bókajól enn eitt árið. Og mér sýnist að útgefendur og vonandi lesendur megi afskaplega vel við una.“

Endanlegar sölutölur eftir jólin liggja ekki fyrir, enda eiga margir eftir að skila og skipta bókum sem þeir fengu í jólagjöf. Egill segir þó nokkuð ljóst að Kamp Knox, bók Arnaldar Indriðasonar, hafi selst langmest á árinu - hún hafi selst í vel yfir 20.000 eintökum.

Hefð að lesa Arnald á jólunum
„Ég held að Arnaldur Indriðason hafi verið meira og minna í efsta sæti metsölulistans í 14 ár, þetta sé fjórtánda árið eða allt frá því að Mýrin kom út árið 2000. Síðan þá hefur hann verið nánast einráður í fyrsta sæti og efstu sætum metsölulistanna,“ segir Egill. „Það er orðin hefð hjá æði mörgum landsmönnum að gefa, fá og lesa bækur Arnaldar Indriðasonar á jólunum.“

Egill segir sérlega ánægjulegt hversu vinsælar barna- og unglingabækur hafi verið fyrir jólin í ár: „Og svo það að við sáum íslenska skáldsögu, annað en krimma, skjóta óvænt upp kollinum á lokametrunum, ef svo má að orði komast. Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson sem má segja að sé óvænti smellur ársins en hún seldist í vel yfir 10.000 eintökum.“

Virðisaukaskattshækkun breytir ekki hefðinni
Virðisaukaskattur á bókum hækkar úr sjö prósentum í ellefu um áramótin. Egill segist ekki óttast að jólin í ár verði síðustu stóru bókajólin. „Bækur hafa reyndar verið á góðu verði á Íslandi en það er þessi ríka hefð landsmanna, að gefa bækur í jólagjöf og ég held að hún breytist alls ekki, og reyndar tel ég það útilokað þótt við fáum á okkur hærri virðisaukaskatt á næsta ári.“