Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Boðið að taka á móti 10 hinsegin flóttamönnum

12.10.2017 - 14:56
epa04337721 (FILE) A file picture dated 04 August 2012 shows gay and lesbian activists attend Uganda's first gay pride parade at the Entebbe Botanical Gardens in Kampala, Uganda. Uganda's Constitutional Court on 01 August 2014 annulled an anti
Frá Pride-göngunni í Úganda 2012.  Mynd: EPA - EPA FILES
Velferðarráðuneytið hefur boðið Mosfellsbæ að taka á móti 10 hinsegin Úgandamönnum sem hafast við í flóttamannabúðum í Kenía. Bæjarráð Mosfellsbæjar er jákvætt gagnvart erindinu en bæjarfélagið hefur áður lýst yfir vilja sínum til að taka á móti flóttamönnum. Á fundi bæjarráðs í morgun var framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs falið að ræða við velferðarráðuneytið og undirbúa samning um verkefnið

Í bréfi velferðarráðuneytisins kemur fram flóttamannanefnd hafi lagt til við félags- og jafnréttismálaráðherra að óska eftir viðræðum við Mosfellsbæ um að taka á móti kvótaflóttafólki frá Úganda. 

Nefndin taldi mikilvægt að hinsegin flóttafólk byggi á höfuðborgarsvæðinu þar sem fleiri einstaklingar sem falla undir hinsegin-regnhlífina séu búsettir. „Hinsegin flóttafólk upplifir sig oft berskjaldað og því er talið jákvætt að það búi í stærri samfélögum,“ segir í bréfi ráðuneytisins. 

Þá hafi einnig verið horft til þess að í hópnum yrði hugsanlega trans einstaklingur sem muni að öllum líkindum þurfa á sérhæfðri læknismeðferð að halda. „Stefnt er að komu hópsins til landsins sem allra fyrst og undirbúningur er hafinn á vali á einstaklingum í samstarfi við Flóttamannastofnun SÞ.“

Fallist Mosfellsbær á að taka við fólkinu mun sveitarfélagið meðal annars útvega því húsnæði og veita því nauðsynlega þjónustu.

Samkynhneigð hefur verið bönnuð með lögum í Úganda frá nýlendutímanum, en úgandskt hinsegin fólk engu að síður haldið lágstemmdar gleðigöngur undanfarin fimm ár. Fyrir fjórum árum hertu stjórnvöld löggjöf gegn samkynhneigð þrátt fyrir hávær mótmæli alþjóðasamfélagsins. Þrátt fyrir að stjórnlagadómstóll hafi síðar fellt lögin úr gildi hefur hinsegin fólk þurft að þola miklar ofsóknir.

Ríkisstjórnin samþykkti að taka á móti 50 flóttamönnum á næsta ári á fundi sínum 30. ágúst. Hinn hópurinn er arabískumælandi flóttamenn sem eru í Jórdaníu. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV