Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Boðar ráðherranefnd um flóttamannavandann

30.08.2015 - 19:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ætlar að skipa ráðherranefnd til að ræða viðbrögð Íslands við flóttamannavandanum. Samstaða sé um að gera eigi meira til að bregðast við flóttamannavandanum.

 

Vaxandi þrýstingur er nú á stjórnvöldum að taka á móti fleiri en fimmtíu kvótaflóttamönnum til landsins vegna alvarlegs ástands í flóttamannamálum. Þetta á við um stjórnmálamenn jafnt sem almenning á samfélagsmiðlum.

Sigmundur Davíð boðar nú aðgerðir. „Ég geri ráð fyrir að á ríkisstjórnarfundi á þriðjudaginn muni ég leggja til að stofnuð verði sérstök ráðherranefnsd um þennan vanda og henni falið að meta hvernig Íslendingar geti brugðist best við, hvernig við getum lagt mest af mörkum til þess að aðstoða.“

Þar verður meðal annars skoðað hvort tekið verði á móti fleiri flóttamönnum. „Við höfum haft það að markmiði að láta gott af okkur leiða á sem flestum sviðum alþjóðamálanna og þetta er eitt af þeim er er hvað mest aðkallandi núna,“ segir Sigmundur Davíð.

Hann vill ekki nefna hversu margir eigi að koma hingað, en telur þó óraunhæft að bjóða 5.000 manns að koma hingað eins og handhafar síðu á Facebook hafa skorað á stjórnvöld að gera. „Ég held að það sé samstaða um að við eigum að gera meira til að bregðast við vandanum, við þurfum bara að finna út úr því hvernig við gerum það best.“