Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Boðar hertar reglur um leiðangursskip

10.05.2018 - 18:17
Leiðangursskip úti fyrir Hornströndum
 Mynd: ruv
Forstjóri Umhverfisstofnunar boðar hertar reglur um landgöngu úr skemmtiferðaskipum í Hornstrandafriðlandinu í væntanlegri verndaráætlun fyrir svæðið. Óvíst er hins vegar hvenær vinnu við hana lýkur.

Yfirvöld hafa um skeið haft til skoðunar komur smærri skemmtaferðaskipa, svokallaðra leiðangursskipa, sem sigla umhverfis Ísland á sumrin. Brögð eru að því að farþegarnir séu sendir í land með gúmmíbátum utan hafna til að skoða þar náttúruna. Þetta gera þeir jafnvel á friðlýstum svæðum, eins og fréttastofa sagði frá í gær.

Kynntu sér hættu á mengunartjóni

Nokkur hundruð farþegar eru í hverju skipi og sextíu ferðir eru fyrirhugaðar í sumar en um þær gilda engar reglur. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir hins vegar að fyrir nokkrum árum hafi sérstaklega verið fylgst með skipakomunum í friðland Hornstranda – út frá tveimur meginsjónarmiðum.

„Annars vegar hættu á mengunartjóni – það er að stærri skip mundu hreinlega stranda og valda þannig mengunartjóni – og hins vegar áganginum gagnvart friðlandinu,“ segir Kristín Linda.

Í kjölfarið hafi verið ákveðið að fylgjast frekar með málinu. Nú er starfshópur nokkurra stofnana að skoða íslenskt regluverk um komur skemmtiferðaskipa, meðal annars landtöku utan hafna, og hvort gera þurfi breytingar þar á.

Ferðamenn geta valdið mjög miklu álagi

Kristín segir að þarna togist á sjónarmið um landvernd annars vegar og almannarétt til að ferðast um landið hins vegar. Hún segir að reglur í friðlöndunum verði líkast til öðruvísi en annars staðar og friðlandið á Hornströndum sé til sérstakrar skoðunar.

„Vegna þess að það er friðland þar sem við gerum ekki ráð fyrir að við verðum með mikla innviði. Þannig að stórir hópar sem koma þar, hvort sem þeir koma labbandi eða með þessum hætti inn í friðlandið, þeir geta valdið mjög miklu álagi,“ segir hún.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Kristín Linda Árnadóttir.

Vilja ekki mikinn fjölda

Í fyrra hófst vinna við að gera verndaráætlun um Hornstrandafriðlandið. Þar verður tekið á þessum skipakomum og Kristín Linda segist ekki sjá annað fyrir sér en að reglurnar verði hertar.

„Við horfum fram á það, já, vegna þess að það er aukning í fjölda ferðamanna sem eru að koma inn á svæðið og við viljum ekki byggja upp svæðið þannig að það taki við miklum fjölda ferðamanna. Þannig að þetta þýðir hreinlega að það þarf að vera með skýrari og líklega strangari reglur inn á Hornstrandafriðland,“ segir hún.

„Getur tekið ansi góðan tíma“

Kristín Linda treystir sér ekki til að segja til um hvenær verndaráætlunin verður tilbúin.

Erum við að tala um mánuði eða jafnvel einhver ár sem þetta tekur?
„Þetta getur tekið ansi góðan tíma. Sérstaklega eins og varðandi Hornstrandafriðlandið – við erum að hafa samráð við fjöldamarga landeigendur og svo auðvitað sveitarfélagið,“ segir hún. „Og samtal tekur tíma, en það er alveg gríðarlega mikilvægt að eiga gott samtal við fólk sem er þarna inni á svæðinu,“ segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV