Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Boðar aðgerðir strax í skóla- og samgöngumálum

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson/RÚV
Framsóknarflokkurinn í Reykjavík vill halda flugvellinum í Vatnsmýri, hafa frítt í Strætó og hækka laun kennara um hundrað þúsund krónur á mánuði.

Framsóknarflokkurinn kynnti í dag aðgerðaáætlun í Reykjavík, sem koma á til framkvæmda strax á fyrri helmingi nýs kjörtímabils, komist flokkurinn í meirihluta í borgarstjórn. Skóla- og umferðarmál eru forgangsmál hjá flokknum. „Menntun er sá grunnur sem allt samfélagið og öll velferð samfélagsins hvílir á. Og það eru komnir brestir í grunninn hjá okkur,“ segir Ingvar Mar Jónsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík. „Þess vegna viljum við hækka laun leikskólakennara og grunnskólakennara um 100 þúsund krónur á mánuði, við höfum lengi talað fyrir því, og þetta mun skila sér, þetta er fjárfesting til framtíðar.“

Frítt í strætó og samgöngustyrkur

Flokkurinn vill grípa strax til aðgerða í samgöngumálum, án þess að fara í dýrar framkvæmdir. „Við viljum hafa frítt í strætó í eitt ár, prófa það, sjá hvort það skilar ekki árangri. Og við viljum líka borga háskólanemum 20 þúsund krónur á mánuði fyrir það að nota vistvænar samgöngumáta, sem er að ganga, hjóla eða taka strætó.“

En er þetta ekki dýrt? „Jú, þetta er dýrt en þessi kostnaður er mjög lítill miðað við þau áform að fara í borgarlínu til dæmis og að setja Miklubraut í stokk, það eru framkvæmdir sem kosta að minnsta kosti tæpa hundrað milljarða, þetta kostar einungis nokkra milljarða á ári, þessar tillögur sem við erum að leggja fram núna,“ segir Ingvar. 

Vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýri

Þá vill flokkurinn halda flugvellinum í Vatnsmýri. „Ef við rífum flugvöllinn í Vatnsmýri og byggjum þar íbúðir og húsnæði þá þurfum við að byggja nýjan flugvöll, það er óumdeilt, bara út frá flugöryggissjónarmiðum. Og viljum við virkilega eyða 200 milljörðum, jafnvel 300 milljörðum, í nýjan flugvöll þegar við eigum í vandræðum með að halda við vegakerfinu okkar, gatnakerfinu okkar og að mennta börnin okkar almenninlega?“

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV