Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Boða samkeppni við gamla fyrirtækið

07.05.2013 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Allir starfsmenn íslenska tónlistarvefsins Gogoyoko hættu störfum hjá fyrirtækinu um síðustu mánaðamót. Framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs segir að þeir hafi gengið út, en talsmaður starfsmanna segir að þeim hafi verið sagt upp. Þeir boða stofnun fyrirtækis sem fer í samkeppni við Gogoyoko.

Tónlistarvefurinn Gogoyoko var stofnaður árið 2007. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Frumtak hafa fjárfest í félaginu fyrir tugi milljóna króna og tugmilljóna skuldir til sjóðanna hafa verið afskrifaðar.

Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs segir að endurskipulagning fyrirtækisins hafi gengið vel og að fyrirtækið sé orðið sjálfbært. Hún segir að í byrjun árs hafi starfsmönnum verið sagt upp störfum, en til hafi staðið að endurráða alla og starfsmenn verið látnir vita af því. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að brottför starfsmanna hafi verið óvænt.

Talsmaður fyrrverandi starfsmanna segir þetta alrangt. Uppsagnir hafi ekki verið dregnar til baka, menn hafi einfaldlega verið reknir.Fyrrverandi starfsmenn vinni nú að stofnun fyrirtækis sem verði í samkeppni við Gogoyoko.

Helga Valfells segir að í ráðningarsamningi sé kveðið skýrt á um að fyrrverandi starfsmenn megi ekki fara út í samkeppni við Gogoyoko. Talsmaður starfsmanna segir ekkert slíkt ákvæði vera í samningum, auk þess sem slík ákvæði eigi ekki við þegar fólk sé rekið úr vinnu.

Í yfirlýsingu frá stjórn Gogoyoko sem send var út síðdegis kemur fram að nýr framkvæmdastjóri hafi tekið til starfa í dag. Þar auki segir stjórnin að hún hafi orðið þess áskynja að haft hafi verið samband við einhverja viðskiptavini félagsins og því ranglega haldið fram að það sé að hætta starfsemi. „Að því er virðist í þeim tilgangi að ná viðskiptavinum þess yfir til nýs fyrirtækis. Stjórn félagsins hyggst á næstunni skoða hvort ástæða sé til að grípa til aðgerða vegna þessa,“ segir í yfirlýsingu Gogoyoko.