Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Boða mikinn viðsnúning í rekstri WOW air

27.03.2019 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Gangi ný viðskiptaáætlun WOW air eftir verður mikill viðsnúningur á rekstri félagsins strax á næsta ári. Fyrir áramót var fastráðnum starfsmönnum og verktökum sagt upp til að ná tökum á rekstrinum, alls um 400 manns.

Drög að endurskipulagningu WOW air hafa verið kynnt mögulegum fjárfestum, innlendum sem erlendum, á undanförnum dögum. Stefnt er að því að stíga skref til baka og einblína á rekstur lággjaldaflugfélags - hætta að bjóða upp á dýrari svokölluð Premium og Comfy sæti og fjölga sætum um borð. Ferðum til Indlands, San Francisco, Los Angeles, Chicago, Pittsburgh, Cleveland, Cincinnati og St. Louis verður hætt og leggja á áherslu á söluaukningu og stundvísi í flugi. 

Búist er við því að farþegum flugfélagsins fækki um 1,4 milljónir í ár miðað við í fyrra, en miðað við áætlunina er stefnt að því að fjölga þeim aftur. Búist er við að farþegar hjá félaginu verði 2,3 milljónir á næsta ári og fjöldinn verði aftur kominn upp í 3,2 milljónir árið 2021. Búið er að fækka flugvélum félagsins um 10 frá því í fyrra. Bæta á einni vél við á næsta ári en árið 2021 á flotinn að telja 16 vélar. 

Starfsmenn voru fjórtán hundruð árið 2018 en verður fækkað í 915 á þessu ári. 60 manns verður bætt við á næsta ári en árið 2021 á tólf hundruð sextíu og einn starfsmaður að vinna hjá fyrirtækinu. Tap af rekstri Wow air var 179 milljónir dollara, eða rúmlega 21 milljarður íslenskra króna, í fyrra. Búist er við 9,9 milljóna dollara eða rúmlega milljarðs króna tapi á þessu ári, en strax 20 milljóna dollara rekstrarhagnaði 2020 og sjötíu og tveggja milljóna dollara hagnaði 2021. Það eru tæplega 9 milljarðar íslenskra króna.