Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Boð um aðstoð við flóttamenn dælast inn

30.08.2015 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjöldi fólks hefur sent Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra opið bréf á Facebook og boðið fram margvíslega aðstoð við flóttamenn, í kjölfar þess að hún kallaði eftir aukinni aðstoð almennings. Peningastyrkir, fatnaður, flugmiðar og jafnvel heilu íbúðirnar er meðal þess sem fólk býður.

Bréfunum er safnað saman á Facebook-síðunni Kæra Eygló Harðar - Sýrland kallar. Hér fyrir neðan má sjá nokkur af fjölmörgum boðum sem borist hafa á síðustu klukkustund. 

Ég get gjarnan passað börn, farið með þau á leikskóla, skóla og allt sem þau þurfa. Ég get tekið fólk í mat og get sýnt vináttu og hlýju. Ég get greitt flugmiða fyrir eina litla fjölskyldu. Ég get lagt til þekkingu mina og hjálpað barnshafandi konum í mæðravernd.

Ég er með aukaherbergi í rúmgóðri íbúð sem ég er svo sannarlega tilbúin til að deila ásamt tíma mínum og almennum stuðningi.

Ég er til í að hjálpa með fatnað og húsbúnað, gæti mögulega hýst 1-2 tímabundið, lagt til pening, hjálpað fólki að læra íslensku og koma sér vel fyrir í íslensku samfélagi.

Ég vil gjarnan hjálpa, ég á föt, eldhús áhöld, rúm og herbergi á Hvanneyri sem ég glöð myndi vilja bjóða Sýrlendingum til afnota. Ég vil gjarnan vinna sem sjálfboðaliði við að taka á móti fólki og hjálpa því við að komast inn í samfélagið á Íslandi.

Ég get tekið á móti barni og séð um framfærslu þess, menntun, stuðning og ást til átján ára aldurs og auðvitað eftir það líka.

Ég skal borga flugfar fyrir tvo, leggja til húsgögn, fatnað og annað sem til þarf, er einnig til í allskonar aðstoð. Legg það einnig til að íbúðir sem standa auðar á vegum Íbúðalánasjóða víða um land verði teknar undir þetta verkefni. Ég er viss um að fólk er til í að aðstoða við að koma þeim í stand ef þarf - ég býð fram krafta mína í það verkefni líka.

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV