Boð Trumps kom embættismönnum á óvart

20.07.2018 - 14:15
U.S. President Donald Trump, left, and Russian President Vladimir Putin shake hand at the beginning of a meeting at the Presidential Palace in Helsinki, Finland, Monday, July 16, 2018. (AP Photo/Pablo Martinez Monsivais)
 Mynd: AP
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, segist hlakka til að hitta Vladimir Pútín, forseta Rússlands, í Hvíta húsinu í haust. Boð Trumps til Pútíns kom bandarískum embættismönnum á óvart. Yfirmaður öryggisstofnanna vestanhafs frétti af því í beinni útsendingu.

Fréttir af heimboðinu bárust fyrst á Twitter, í tísti frá Söru Huckabee Sanders, talskonu Hvíta hússins í gær. Í framhaldinu sagðist Trump hlakka til að hitta Pútín aftur. Trump hefur legið undir ámæli vestanhafs síðustu daga eftir fundinn í Helsinki á mánudag; hann virtist í fyrstu kjósa að trúa frekar Pútín heldur en öryggisstofnunum vestanhafs; forsvarsmenn þeirra fullyrða að þeir hafi órækar sannanir fyrir því að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar 2016.

Trump hefur síðan þá ítrekað reynt að útskýra og endursmíða skilaboð sín. En heimboðið í gær kom mörgum á óvart, þar á meðal Dan Coats, sem er æðsti yfirmaður allra öryggistofnana Bandaríkjanna. Hann var á ráðstefnu um öryggismál í Aspen í Colorado í gær og sat á sviði í beinni útsendingu með Andreu Mitchell, fréttakonu NBC sjónvarpsstöðvarinnar. Andrea sagðist vera með glænýjar fréttir um heimboðið, viðbrögð Coats vöktu athygli. 

„Það verður eitthvað,“ sagði Coats í Aspen í gær. Ekki er ljóst hvenær Pútín kemur til Washington. Trump segist ætla að nota tækifærið til að ræða stöðuna í Úkraínu, Sýrlandi og Norður-Kóreu meðal annars. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í morgun að það væri jákvætt fyrir ríkin tvö, Bandaríkin og Rússland, að Pútín og Trump ætluðu að hittast aftur. Pútín kom síðast í Hvíta húsið árið 2005, í boði George Bush, þáverandi forseta. 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi