Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

BNA: Meirihluti vill lögleiða marijúana

06.04.2013 - 00:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Í fyrsta sinn í sögunni er meirihluti Bandaríkjamanna hlynntur því að lögleiða sölu og neyslu marijúana. Þetta kemur fram í nýrri könnun stórblaðsins Washington Post og fréttastofu ABC-sjónvarpsstöðvarinnar.

52 prósent segjast ekki sjá neitt því til fyrirstöðu að leyfa marijúana, 45 prósent eru andvíg því.

Þetta er róttæk viðhorfsbreyting á skömmum tíma.

Fyrir áratug voru fimmtungi fleiri andvígir því að heimila neyslu efnisins, en hlynntir því. Og í nóvember voru jafn margir með og á móti.

Washington Post segir vega þyngst að liðlega tveir þriðju ungs fólks, 18-32 ára, vilji leyfa marijúana.

Þá fækki þeim sem telji að neysla marijúana dragi menn inn í vítahring og neyslu sterkari fíkniefna, þeir séu þó 38 prósent í nýju könnuninni.

Einnig séu þeir mun færri en löngum áður sem telji það siðferðilega rangt að reykja marijúna.

Tæpur þriðjungur, 32 prósent, telur þó enn að það sé siðferðilega ámælisvert.