Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Blóðug mótmæli á Haítí

12.02.2019 - 01:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Minnst fjórir hafa dáið og tugir særst í hörðum mótmælum á Haítí síðustu daga. Fjöldi fólks hefur safnast saman á götum og torgum höfuðborgarinnar Port-au-Prince og fleiri borga og bæja síðustu fjóra daga og krafist afsagnar forsetans, Jovenel Moise. Mótmælendur hafa kveikt í dekkjum á götum úti og kastað grjóti en öryggissveitir hafa mætt þeim af fullri hörku með táragasi, bareflum og jafnvel skotvopnum.

Skólar, verslanir og fleiri fyrirtæki eru víða lokuð vegna ótta við ofbeldisverk, sem einkennt hafa mótmælin að undanförnu. Í síðustu viku blés stjórnarandstaðan til skipulegra mótmæla vegna frétta af óstjórn, óráðsíu og fjárdrætti forsetans og annarra áhrifamanna í ríkisstjórn landsins, sem er eitt það fátækasta í heimi.

Síðustu dagar hafa hins vegar einkennst af sjálfsprottnum mótmælasamkundum sem líkjast meira uppþotum en pólitískum aðgerðum, segir í frétt AFP.

Ekkert hefur heyrst opinberlega frá forsetanum síðan mótmælin hófust og fer tvennum sögum af ástæðunum fyrir því. Stjórnarandstæðingar segja forsetann þegja þunnu hljóði og saka hann um að hunsa sig og þjóðina alla en talsmenn forsetans fullyrða að hann hafi ítrekað boðið fulltrúum stjórnarandstöðunnar til viðræðna en engin svör fengið.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV