Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Blóðug átök eftir handtöku „hins stutta“

05.07.2017 - 23:45
Mynd með færslu
 Mynd: AP - US Law Enforcement
26 eru látnir eftir skotbardaga í bænum Las Varas í Chihuahua-fylki í norðurhluta Mexíkó. Ástandið í fylkinu er mjög eldfimt, ekki síst vegna baráttu glæpasamtaka um yfirráðasvæði sem áður voru undir stjórn Joaquín Guzman, El Chapo, og Sinaloa-samtakanna. Meira en 11 þúsund hafa verið myrtir í Mexíkó fyrstu fimm mánuði þessa árs og morðtíðni hefur ekki verið hærri í tvo áratugi.

Fram kemur á vef Guardian að morðin í Las Varas komi aðeins nokkrum dögum eftir að nítján létust og fimm lögreglumenn særðust í skotbardaga milli öryggissveita og grunaðra liðsmanna glæpasamtaka í Sinaloa-fylki.

Á vef BBC kemur fram að eftir handtöku Guzman í janúar á síðasta ári hafi ofbeldið í landinu stigmagnast, ekki síst vegna valdabaráttu innan Sinaloa-samtakanna. Þar takast á um völdin synir fíkniefnabarónsins annars vegar og synir fyrrverandi aðstoðamanns hins vegar .  Þá hafa ný samtök, Jalisco New Generation sömuleiðis verið að að gera sig gildandi, samkvæmt vef Los Angeles Times.

Guardian greinir frá því 11.155 morð hafi verið framin fyrstu fimm mánuði ársins. Maí var einn blóðugasti mánuðurinn frá því að mælingar hófust - 2.186 voru þá myrtir.

Sérfræðingar telja þetta aukna ofbeldi megi að einhverju leyti rekja til þess að glæpasamtökin hafi í vaxandi mæli snúið sér að smygli á heróíni til Bandaríkjanna í stað marijúana.   

Á vef Los Angeles Times kemur fram að stríðið gegn fíkniefnum hafi verið ofarlega á baugi í viðræðum John Kelly, heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, og Enrique Peña Nieto, forseta Mexíkó í dag. Kelly, sem er í þriggja daga heimsókn í landinu, er stuðningsmaður þess að eftirlit á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna verði eflt til muna.  Ráðamenn í Mexíkó  telja hins vegar skynsamlegra að nágrannaríkið verji meiri fjármunum í að draga úr eftirspurn á fíkniefnum heima fyrir.

Felipe Calderón, fyrrverandi forseti Mexíkó, lýsti yfir stríði gegn glæpasamtökum árið 2006 og sendi hermenn út á götur til að berjast við vígamenn þeirra. Á vef Guardian kemur fram að í fyrstu hafi ofbeldi í landinu aukist en átökin hafi verið í rénun þegar Nieto, núverandi forseti, tók við völdum.  

Nýleg tölfræði sýnir að morðtíðni í landinu fyrstu 54 mánuðina undir stjórn Nieto er 17,7 prósentum hærri en á sama tímabili hjá Calderón.  

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV