Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Blítt það ómar

Mynd:  / 

Blítt það ómar

16.12.2018 - 11:38

Höfundar

Elífa tungl er fimmta sólóplóta Guðrúnar Gunnars og innihaldið ljúfir og þekkilegir söngvar af ýmsu tagi. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Síðasta sólóplata Guðrúnar Gunnars kom út fyrir níu árum síðan og var sú með lögum eftir sænska söngvaskáldið Cornelis Vreeswijk. Í þetta sinnið er litaspjaldið hins vegar æði fjölskrúðugt, innlend og erlend lög eftir ýmsa og textar sömuleiðis. En þrátt fyrir þessi fjölbreyttu aðföng býr platan yfir sterkum heildartón, sem er í senn blíður og umlykjandi – fullkomlega í takt við fallega og tæra söngrödd Guðrúnar. Höfundar efnis eru meðal annarra Aðalsteinn Ásberg, Ásgeir Ásgeirsson, Haraldur V. Sveinbjörnsson, Sigvaldi Kaldalóns, Sveinn Arnar Sæmundsson, Sigurbjörg Þrastardóttir og Bragi Valdimar Skúlason. Hljóðfæraleikarar eru Ásgeir Ásgeirsson (gítar og tambúra), Gunnar Gunnarsson (píanó og rhodes), Hannes Friðbjarnarson (trommur og slagverk) og Þorgrímur Jónsson (kontrabassi). Svavar Knútur syngur einnig dúett með Guðrúnu í einu lagi og Þórdís Gerður Jónsdóttir leikur á selló í öðru.

Blíð

Guðrún Gunnarsdóttir er með okkar helstu söngkonum. Söngrödd hennar er falleg og blíð, góðleg eiginlega og hefur vald til að sefa hug og hjarta. Söngurinn er skýr og næmur; Guðrún þeytir sér aldrei upp í óþarfa slaufur né missir hún sig niður í einhvern drafleika. Línunni er haldið, jafnvægið er gott og inntak þessarar plötu styður mjög vel við þessa gjöf Guðrúnar. Konseptið og allar útsetningar ganga að því leytinu upp, sem er hrósvert, en vel er hægt að klúðra slíkum málum. Efnið hentar ekki söngvaranum eða öfugt. Hér er hins vegar sleginn hárnákvæmur tónn hvað þetta varðar.

Erfitt er að veiða upp eitt lag umfram annað. En er hér til dæmis smekkleg útgáfa af skoska þjóðlaginu „Wild Mountain Thyme“, sem nú heitir „Komdu með“. Upphafslagið, „Ef tími vinnst til“, sem Haraldur V. Sveinbjörnsson semur er þá óumræðilega ljúft og fagurt, svona „þegar sígilt“ lag mætti segja, svo áreynslulaust er það. Bragi Valdimar Skúlason rís undir áskoruninni og leggur til djúpan texta um hverfulleika tilverunnar og mikilvægi þess að reyna að lifa lífinu til fulls. Guðrún sinnir líka því sem mætti kalla sígildri vísnatónlist vel. Aðalsteinn Ásberg, útgefandi, leggur til lagið „Með storminn í fangið“ sem er í þessum kunna, skandinavíska stíl hvað það varðar og hinn norski Lars Bremnes á lagið „Ótækt lag“ sem Guðrún framreiðir af kostgæfni.

Sveigt

Platan er ekki uppfull af slögurum, höfundar stundum þekktir en sveigt er frá þeirra kunnasta efni. Þetta gerir að verkum að söngkonan er í forgrunni út í gegn, röddin stendur glæst í miðjunni og undirleikur allur gerður til að lyfta henni upp. Ljúft og einlægt verk og fagur vitnisburður um óskaraða hæfileika listamannsins.

Með því að smella á myndina efst í færslunni má heyra samtal þeirra Þorsteins Hreggviðssonar í Popplandi, Andreu Jónsdóttur og Arnars Eggerts um Plötu vikunnar.