Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Blikur á lofti á kjötmarkaði

15.06.2015 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Stjórnarmaður í Búsæld býst við því að fjölmennur hlutahafafundur hafni því að Norðlenska til Kjarnafæðis. Þó blikur séu á lofti á kjötmarkaði sé engin knýjandi þörf á sameiningu. Bændur á Norður- og Austurlandi ákveða í dag hvort þeir taka tilboðinu.

Kjarnafæði bauð 750 milljónir í allt hlutafé í kjötvinnslufyrirtækinu Norðlenska. Það er nú í eigu félagsins Búsældar en að baki því standa rúmlega 500 bændur. Þeir eignuðust allt hlutafé í Norðlenska 2007 en hluti af innleggi þeirra hefur farið í að greiða niður skuld vegna kaupanna. Það gengur vel og verður skuldin að fullu greidd árið 2017.

Aðalsteinn Jónsson, bóndi í Klausturseli á Jökuldal og stjórnarmaður í Búsæld, býst við að kauptilboði Kjarnafæðis verði hafnað á hluthafafundinum í dag. Tilboðið hafi komið á óvart því hvorki Búsæld né Norðlenska eigi í vandræðum í augnablikinu en vissulega séu blikur á lofti. Eftir góða afkomu á árunum 2011-2013 hafi verið mikið offramboð á kjöti í Evrópu. Launahækkanir hafi lent á kjötvinnslum en ekki komist út í verðlagið vegna mikillar samkeppni við innflutt kjöt.

Aðalsteinn bendir einnig á að miklar birgðir hafi hlaðist upp af bæði svína- og kjúklingakjöti vegna verkfalls dýralækna. Hann segir að stjórn Búsældar vilji upplýsa bændur um stöðuna og horfurnar svo að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir taka tilboði Kjarnafæðis. Fleiri leiðir komi til greina eins og sameining. Fundurinn hefst í Valaskjálf á Egilsstöðum klukkan eitt. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV