Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Bleikur Strokkur fer fyrir dómstóla

Mynd með færslu
 Mynd: Marco Evaristti

Bleikur Strokkur fer fyrir dómstóla

28.04.2015 - 14:05

Höfundar

Síleíski listamaðurinn Marco Evaristti, sem búsettur er í Danmörku, vakti mikla athygli á föstudaginn þegar hann hellti bleiku litarefni í Strokk í Haukadal. Evaristti var sektaður um 100 þúsund krónur fyrir uppátækið, sem vakti bæði hneykslan og reiði hér á landi.

Sjálfur segir Evaristti að öll þessi reiði og neikvæðni sé hins vegar jákvæð því hún bendi til þess að fólki sé ekki sama um náttúruna.

„Ég fór ekki til Íslands til að vinna skemmdarverk, en það gleður mig alltaf þegar listin mín opnar augu fólks. Ég get fullvissað ykkur um að liturinn sem ég notaði var meinlaus ávaxtalitur og Strokkur var orðinn eins og hann á að sér að vera klukkan þrjú þennan sama dag, þegar lögreglan kom í heimsókn,“ segir Evaristti á Facebook síðu sinni.

„Eftir að hafa verið yfirheyrður af lögreglu var ég sektaður fyrir að skemma Strokk. En þar sem ég trúi því ekki að þetta meinlausa inngrip mitt hafi skemmt Strokk varanlega ætla ég að fara með málið fyrir dómstóla,“ segir Evaristti.

Hér má sjá myndskeið sem Evaristti tók sjálfur af Strokki eftir að hann hafði sett bleika litarefnið í hverinn.

The Rauður Thermal Project, 2015

Posted by Marco Evaristti on 24. apríl 2015


Ögrar og hneykslar

Þetta er langt frá því að vera í fyrsta skipti sem Evaristti hneykslar með list sinni. Langþekktasta verk hans var sýnt í Trapholt safninu í Danmörku árið 2000. Þá stillti Evaristti upp tíu matvinnsluvélum fullum af vatni. Til þess að ögra áhorfandanum setti Evaristti svo lifandi gullfiska ofan í matvinnsluvélarnar, og gaf gestum safnsins kost á að setja matvinnsluvélarnar í gang. Sýningin vakti gríðarlega reiði á meðal dýraverndunarsinna og endaði það með því að mál var höfðað á hendur safnstjóranum fyrir illa meðferð á dýrum. Hann var þó sýknaður.

Marco Evaristti vakti athygli og hneykslun árið 2000 með innsetningunni Helena & el Pescador, þar sem gullfiskum var komið fyrir í matvinnsluvélum. Gestum myndlistarsýningarinnar bauðst svo að ýta á takkann og mauka fiskana.

Árið 2004 vakti Evaristti aftur mikla reiði á meðal umhverfisverndarsinna þegar hann málaði efsta hluta ísjaka á Grænlandi rauðan. Þremur árum síðar, árið 2007, bauð Evaristti fólki svo í listrænan kvöldverð þar sem aðalrétturinn var ravioli pasta. Pastað var fyllt með kjöti sem var meðal annars búið til úr fitu sem Evaristti hafði látið sjúga úr sjálfum sér skömmu áður.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Gagnrýnir þögn frá Bandalagi listamanna

Suðurland

Fær sekt fyrir „bleikan“ gjörning

Umhverfismál

Lítið sést á Strokki eftir „bleikt gos“