Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Blatter og Platini í 90 daga bann

08.10.2015 - 11:08
Erlent · fifa
epa04968454 (FILE) A file picture dated 29 May 2015 of FIFA President Joseph Blatter (L) being congratulated by UEFA President Michel Platini (R) after his election as FIFA president during the 65th FIFA Congress in Zurich, Switzerland. FIFA president
 Mynd: EPA - KEYSTONE / EPA FILE
Siðanefnd Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, úrskurðaði formlega nú fyrir stundu að Sepp Blatter, forseti FIFA, og Michel Platini, forseti evrópska knattspyrnusambandsins UEFA, skyldu víkja úr embættum sínum í 90 daga.

Þá er suður-kóreska auðjöfrinum Chung Mong-Joon, sem ætlar líkt og Platini að bjóða sig fram til forseta FIFA á næsta ári, bannað að starfa á vettvangi alþjóðaknattspyrnu næstu sex árin. Fréttaskýrandi breska blaðsins Guardian telur að með úrskurðinum hafi verið bundinn endir á vonir Platinis um að verða forseti FIFA.

Ástæða brottvikninganna er rannsókn saksóknara í Sviss á ásökunum um að Blatter hafi árið 2011 greitt Platini með ólögmætum hætti tvær milljónir svissneskra franka. Greiðslan er sögð hafa verið fyrir störf á árunum 1999 til 2002. Blatter neitar sök og Platini segir greiðslurnar ekki hafa verið ólöglegar.

Guðjón Helgason
Fréttastofa RÚV