Blása af leit ef björninn finnst ekki í dag

10.07.2018 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Ef hvítabjörninn, sem lögreglu á Norðurlandi eystra var tilkynnt um í gær, finnst ekki eftir þyrluflug Landhelgisgæslunnar í dag verður leitin blásin af í bili. Þetta segir Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra. Kannað var hvort skyttur á svæðinu gætu verið lögreglu innan handar á meðan hún leitaði dýrsins.

Töluðu við skyttur og kunnandi menn

„Við fengum hnit um hvar dýrið hafði sést og byrjuðum að sjá hvar það væri, fara yfir það. Hér á Húsavík eru kunnandi menn um Melrakkasléttu, sem hafa verið mikið á þessu svæði, og við kölluðum þá til líka til að kanna hvernig væri best að leita þarna,“ segir Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, um leitina að hvítabirninum í gær. „Það kom fljótlega í ljós að það væri auðvitað raunhæfast og best að fá Landhelgisgæsluna með okkur í lið. Því var mjög vel tekið, enda miklu meiri yfirsýn með því að leita úr lofti. Þetta svæði er erfitt yfirferðar.“

Lítið annað í stöðunni en að fella dýrið

Þyrla Landhelgisgæslunnar leitar ítarlega að dýrinu í dag en ef það finnst ekki verður leit hætt í bili, segir Halla, nema ný tilkynning kalli á annað. Leitast var upplýsinga um skyttur á svæðinu sem lögregla gat vitað af ef ske kynni að dýrið skyti upp kollinum, segir Halla, enda segir hún að dýrið sé hættulegt og öryggi fólks sé í fyrirrúmi. „Þetta eru auðvitað hættuleg dýr þannig að þú ert aðallega að hugsa um öryggi fólks. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Í rauninni er lítið annað í stöðunni en að fella svona dýr.“

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV