Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bláeygar sálir í svellkaldri sveiflu

Mynd: RÚV / RÚV

Bláeygar sálir í svellkaldri sveiflu

27.06.2017 - 12:22

Höfundar

Önnur plata Kiriyama Family er grúvbundin mjög og nikkar hressilega kolli til bláeygrar sálartónlistar frá níunda áratugnum. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Bláeyg sálartónlist, hvað er það? Lýsingin var kokkuð upp á níunda áratugnum til að lýsa áhuga og ástríðu hvítra, oftast karlmanna, á sjóðheitri sálartónlist svartra. Hall & Oates eru ágætt dæmi um slíkt, Bowie heitinn lagði upp með þetta á Young Americans o.s.frv. Formið varð þó fyrst forvitnilegt er Bretinn tók það upp á arma sína. Sveitir eins og Scritti Politi og ABC, með rætur í pönki og tilraunatónlist, döðruðu við það af krafti og sálartónlistarblær fylgdi snilldarsveitum (Prefab Sprout), meðalgóðum sveitum (Deacon Blue) og hörmungarsveitum (Wet Wet Wet). Stundum var útfærslan krúttlega stirðbusaleg og stundum bara yndisleg, einkanlega vegna stefnumóts tveggja ólíkra hluta.

Uppgufun

Þessar æfingar gufuðu upp að mestu þegar brast á með tíunda áratugnum en afturhvarf er reglubundið, mér verður t.d. hugsað til gæðasveitarinnar Montée frá Noregi sem sótti á þessi mið. Og eins er með Kiriyama Family. Skeggjaðir, húðflúraðir og skjannahvítir karlmenn frá Íslandi sem virðast samt ekki átta sig á því og leika eins og þeir séu á sviði með Sade í London árið 1986. Söngkonan Hulda Kristín Kolbrúnardóttir skakkar síðan þetta testósterónpartí, er samt ekki viss hvort hún sé bláeyg en hárið er það þó!

En semsagt, svona er hljóðmynd plötunnar. Sálarríkt, grúvandi popp sem vísar í allt ofangreint og jafnvel á köflum í íslenskt stuðpopp; Fjörefni, Ljósin í bænum til dæmis. Tónninn er sleginn í fyrsta lagi, „About You“, hljómborðið undirstrikar tímabilið og öll önnur hljóðfæri reyndar líka ef út í það er farið. Söngvarinn, Karl M. Bjarnarson, syngur af hæfandi tilfinningu og Hulda styður smekklega við. Hún leiðir síðan næsta lagi, „Lightyears Away“, sem er í svipuðum gír. Af hápunktum má nefna „Innocence“ og „Push Further“, vel samin lög með einkar áhrifaríkum viðlögum. „While You Await“ er nokkurs konar níunda áratugs æfing, trommurnar með þessum einkennandi, Phil Collins-væna bergmálshljóm.

Þessi plata er að mörgu leyti hljóðfæraleikaraplata. Það er unun að hlýða á samspilið og fremstur meðal jafningja er trymbillinn, Bassi Ólafsson, sem á hreint út sagt ótrúlega spretti á köflum. Það sem hægt væri að setja út á er að sum laganna eru „undirsamin“ ef svo má segja,  „Anyway but Here“ dragnast t.a.m. áfram stefnulaust og sumar smíðanna hefðu vel mátt við meiri broddum og þéttingu. Gæðunum er dálitið misskipt í þeirri deildinni.

Rennur

Heilt yfir rennur plata hins vegar ljúflega, þetta er þægileg tónlist án þess að vera ódýr. Kiriyama Family geta vel við unað og er óhætt að horfa bláeygum, bjartsýnum augum til framtíðar.