Blaðamenn Reuters í Mjanmar náðaðir

07.05.2019 - 04:11
Reuters journalists Wa Lone, left, and Kyaw She Oo wave as they walk out from Insein Prison after being released in Yangon, Myanmar Tuesday, May 7, 2019. The chief of the prison said two Reuters journalists who were imprisoned for breaking the country's Officials Secrets Act have been released. (AP Photo/Thein Zaw)
Wa Lone (t.v.) og Kyaw Soe Oo fagna frelsinu kampakátir, á leið út úr Insein-fangelsinu í Yangon þar sem þeim var haldið í 511 daga. Mynd: AP
Yfirvöld í Mjanmar létu í morgun lausa tvo blaðamenn Reuters-fréttastofunnar sem fangelsaðir voru fyrir umfjöllun sína um ofsóknir hersins gegn Róhingjum haustið 2017. Þeim Wa Lone og Kyaw Soe Oo var sleppt úr haldi eftir að forseti landsins náðaði þá. Reuters-fréttastofan greinir frá þessu. Fjöldi starfssystkina tvímenninganna hópaðist að þeim þegar þeir yfirgáfu hið illræmda Insein-fangelsi í Yangon, þar sem þeir hafa þurft að dúsa við illan kost í ríflega 500 daga.

Var þeim vel fagnað og þeir spurðir spjörunum úr um framhaldið. Wa Lone hét því að halda áfram að sinna blaðamennskunni. „Ég er blaðamaður og ég mun halda því áfram," sagði hann kollegum sínum; „ég get ekki beðið eftir að komast aftur á ritstjórnina."

Stephen Adler, yfirfréttastjóri Reuters, fagnaði frelsi tvímenninganna í yfirlýsingu og sagði þá tákngervinga þess, hve fjölmiðlafrelsi er mikilvægt í nútímaheimi.

Pulitzer í útlöndum, fangelsi heima

Þeir Lone og Oo voru handteknir í desember 2017, ákærðir og síðar dæmdir fyrir að hafa í fórum sínum leyniskjöl um grimmilegar aðgerðir Mjanmar-hers í Rakhine-héraði, sem urðu til þess að yfir 740.000 Róhingjar flýðu til nágrannaríkisins Bangladess.

Stuðningsfólk og velunnarar tvímenninganna fullyrða að stjórnvöld hafi í raun verið að refsa þeim fyrir að rannsaka hrottalegt morð hermanna á tíu Róhingjum í Rakhinehéraði í september 2017. Utan Mjanmar aflaði umfjöllunin þeim Pulitzer-verðlauna, einhvers mesta heiðurs sem blaðamönnum getur hlotnast, en heimafyrir voru launin handtaka og fangelsisvist. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi