Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Bláberjadagar í Súðavík

Mynd með færslu
 Mynd:

Bláberjadagar í Súðavík

14.08.2013 - 15:02
Súðvíkingar efna til Bláberjahátíðar um helgina. Hátíðin nefnist Bláberjadagar og er fjölskyldu- og uppskeruhátíð þar sem fólk er hvatt til að skemmta sér saman, tína ber og njóta þess besta sem náttúran hefur upp á að bjóða.

Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri í Súðavík, segir sveitarfélagið ákjósanlegt til berjatínslu og berjaspretta á Vestfjörðum sé góð í ár. Hann lofar því góðri uppskeru en fjölbreytt skemmtun verður einnig í boði, meðal annars bláberjahlaup, bláberjakökuát og tónleikar. Til að auka enn frekar á hátíðarstemninguna verður Súðavík skreytt hátt og lágt vegna uppskeruhátíðarinnar og boðið upp á sætaferðir milli innri og ytri byggðarinnar með „bláberjalestinni“ þegar tónleikar standa yfir á veitingastöðunum þremur í Súðavík á föstudagskvöld.

Flóamarkaður með handverk og ýmsar bláberjaafurðir verður í samkomuhúsinu. Keppt verður í bláberjabökuáti og ýmsir aðrir kappleikir, andlitsmálun, listmálun og fleira verður í boði í Melrakkasetrinu. Uppskriftakeppni um gómsæta bláberjarétti fer fram á laugardeginum. Einnig ljósmyndasýning og leiksýning Kómedíuleikhússins um Sigvalda Kaldalóns. Fyrir hlaupagarpa er boðið upp á bláberjahlaup á laugardeginum og bláberjafjalltoppaferðir með leiðsögn verða í boði á Kofra á laugardeginum. Bláberjagönguferð verður einnig að Valagili.