Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Björt framtíð og Flokkur fólksins ekki á þing

Mynd með færslu
 Mynd: AP Images - RÚV
Sjálfstæðisflokkur bætir heldur við fylgi sitt á sama tíma og fylgi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs minnkar nokkuð, samkvæmt nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Niðurstöður hennar birtast í blaðinu í dag og samkvæmt þeim er Sjálfstæðisflokkurinn nú aftur orðinn stærstur flokka, með 25 prósenta fylgi. VG fengi samkvæmt þessari könnun 23,2 prósent. Björt framtíð og Flokkur fólksins fengju ekki mann kjörinn. Fyrrnefndi flokkurinn er nálægt því að þurrkast út.

Samfylking heldur svipuðu fylgi milli kannana, mælist enn þriðji stærsti flokkurinn með 15,6 prósenta fylgi. Þá kemur Miðflokkurinn með tæp 10 prósent, Píratar dala heldur milli kannana og njóta samkvæmt þessu stuðnings 8,2 prósenta kjósenda. Rúm 7 prósent styðja Framsókn og tæp 6 prósent Viðreisn.

Hvorki Flokkur fólksins né Björt framtíð ná fólki á þing, fari kosningar í samræmi við þessa könnun. Flokkur fólksins fengi 3,3 prósent en Björt framtíð, sem sleit ríkisstjórnarsamstarfinu við Viðreisn og Sjálfstæðisflokk, mælist með aðeins 1,5 prósent.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi samkvæmt þessu 17 þingmenn, VG 16, Samfylking 11, Miðflokkur 6, Framsókn og Píratar 5 hvor um sig og Viðreisn 3. Könnunin var gerð dagana 16. - 19. október. Úrtakið var 3.900 manns. Könnunin var hvort tveggja net- og símakönnun. 2.395 svöruðu, sem gefur 62 prósenta þátttöku. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV