Björt framtíð af þingi, Píratar stærstir

19.06.2015 - 05:54
Mynd með færslu
Brynhildur Pétursdóttir spurði forsætisráðherra út í nýjan bíl ráðuneytisins. Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Björt framtíð næði ekki manni á þing ef kosið yrði nú, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Aðeins 3,3% þeirra sem afstöðu tóku styðja flokkinn. Píratar njóta enn langmests fylgis, en 37,5% þeirra sem tóku afstöðu segjast styðja þá. Gengi það eftir fengju Píratar 26 þingmenn kjörna.

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur næst mests fylgis samkvæmt könnun Fréttablaðsins, eða 29,5%, sem gæfi þeim 20 þingmenn í stað 19 nú. Þá kemur Samfylkingin með 11,1% fylgi og 7 þingmenn, tveimur færri en nú, en Framsóknarflokkurinn og Vinstrihreyfingin grænt framboð fengju 5 þingmenn hvor flokkur, í stað 19 og 7 nú.

Í Fréttablaðinu segir Bryndís Pétursdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, niðurstöðurnar áhyggjuefni fyrir flokkinn og ljóst að flokkurinn nái ekki að koma því nógu vel á framfæri hvað hann sé að gera.

Margir óákveðnir 

Um er að ræða símakönnun sem gerð var dagana 15. og 16. júní s.l. Hringt var í 1.249 manns þar til náðst hafði í 800 og spurt, hvaða lista viðkomandi mundi kjósa, ef gengið yrði til kosninga nú. Aðeins 59,4% þeirra sem náðist í tóku afstöðu til spurningarinnar. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi