Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Björgunarsveitir af öllu Suðurlandi við Sólheimasand

27.02.2020 - 23:34
Myndir frá Landsbjörg af björgunaraðgerðum í óveðrinu í desember.
 Mynd: Slysavarnafélagið Landsbjörg
Björgunarsveitir af öllu Suðurlandi hafa í kvöld verið við vinnu við Sólheimasand þar sem um 50 bílar lentu í vandræðum vegna óveðurs. Unnið er að því að koma fólki í skjól og bílar hafa verið skildir eftir.

Eins og fréttastofa greindi frá fyrr í kvöld byrjuðu útköll björgunarsveita á Suðurnesjum, þar sem þurfti að greiða úr flækju sem myndaðist með nokkur hundruð metra bílaröð á Grindavíkurvegi.

Útköllum fór fækkandi á Suðurnesjum þegar leið á kvöldið, en þá tók Suðurlandið við. Appelsínugul viðvörun er þar í gildi til miðnættis.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að björgunarsveitir hafi fengið um 40 beiðnir um aðstoð á Suðurnesjum og miðað við fjölda bíla sem fastir eru á Sólheimasandi má reikna með að þar séu aðstoðarbeiðnir um 50. 

Veðrið er enn afar vont á svæðinu, en farið að sjá fyrir endann á verkefnum björgunarsveita á Sólheimasandi. Fólk hefur þar ýmist verið flutt austur á Vík eða vestur að Skógum.

Fregnir hafa borist af bílum sem lentu í vandræðum á Hellisheiði og Sandskeiði, en veginum þar var lokað um klukkan tíu. Þjóðvegurinn er svo lokaður frá Selfossi og austur að Vík.