Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Björgunarsveitir að í alla nótt að aðstoða ökumenn

28.02.2020 - 06:38
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd - Landsbjörg
Björgunarsveitir af Suðurlandi og Suðurnesjum voru að á fullu við að aðstoða fólk sem lent hafði í vanda í ófærð í gærkvöld og fram á nótt. Björgunarsveitir á Suðurnesjum voru með hópa að störfum í alla nótt og fram á morgun við að aðstoða ökumenn sem lentu í vanda. Tugir beiðna um aðstoð bárust á hvoru svæði um sig.

Vandræðin vegfarenda vegna veðurs og ófærðar hófust að segja má á Grindavíkurvegi í gærkvöld þar sem greiða þurfti úr flækju. Þar var nokkur hundruð metra löng bílaröð.

Þegar leið á kvöldið fækkaði útköllum á Suðurnesjum. Björgunarsveitarmenn voru þó ekki búnir. Einn eða tveir hópar voru að störfum í alla nótt á Suðurnesjum við að aðstoða ökumenn. 

Í gærkvöld fóru að berast margar beiðnir um aðstoð á Suðurlandi þar sem var appelsínugul viðvörun í gildi til miðnættis. Vonskuveður var á Sólheimasandi og þaðan höfðu um fimmtíu beiðnir borist um miðnætti.

Björgunarsveitir af Suðurlandi kepptust við að koma fólki í skjól og voru bílar þess skildir eftir. Fólk var flutt austur á Vík eða vestur að Skógum.

Fólk lenti víðar í vandræðum, svo sem á Hellisheiði og Sandskeiði. Vegum var víða lokað.

Björgunarsveitir voru að á Suðurlandi fram á nótt en ró virtist færast yfir um klukkan þrjú í nótt.

Ófærð og viðvaranir

Engar tilkynningar hafa borist frá Vegagerðinni um færð á vegum. Samkvæmt korti á vef Vegagerðarinnar eru Mosfellsheiði, Þrengsli og Suðurstrandarvegur ófær. Sömuleiðis er hringvegurinn ófær milli Hvolsvallar og Markarfljóts og undir Eyjafjallajökli og þaðan alla leið í Jökulsárlón. Breiðdalsheiði er ófær og sömuleiðis Mývatns- og Möðrudalsöræfi. Einnig virðist ófært um Kleifaheiði, Hálfdán, Þorskafjarðarheiði og Brekkudal.

Enn eru gular viðvaranir í gildi á Faxaflóasvæðinu, Suðausturlandi og Miðhálendinu. Létta á til við Faxaflóa með morgninum en ekki fyrr en í kvöld á Suðausturlandi. Gul viðvörun hefur verið gefin út á Austfjörðum frá klukkan fjögur síðdegis í dag til tvö í nótt. Þar er útlit fyrir austan hvassviðri eða storm, talsverða eða mikla snjókomu með skafrenningi og lélegt skyggni. Allt hefur þetta í för með sér versnandi akstursskilyrði og er líklegt að samgöngur raskist.

Fréttin var uppfærð 7:10 með upplýsingum um stöðuna á Suðurnesjum í morgun.