Björgólfur gekk út úr réttarsal í París

22.05.2019 - 11:19
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Hart var tekist á í frönskum réttarsal í morgun í máli þar sem Björgólfur Guðmundsson, sem var stærsti hluthafinn í Landsbankanum, er einn níu sakborninga. Málið snýst um sérstaka tegund fasteignalána sem Landsbankinn í Lúxemborg veitti. Björgólfur gekk út úr réttarsalnum ásamt lögmönnum sínum þrátt fyrir að dómari hefði sagt honum að hann ætti ekki að yfirgefa réttarsalinn.

Málið er sakamál sem var höfðað fyrir um tveimur árum og þá allir hinna ákærðu sýknaðir. Málinu var áfrýjað og það er áfrýjunarmálið sem nú er fyrir dómi. Í sýknudómnum fyrir tveimur árum var því hafnað að hrunið á Íslandi hefði haft áhrif á Landsbankann í Lúxemborg, að framferði bankamannanna hefði ekki verið saknæmt og að lántökum hefði verið gerð grein fyrir áhættunni.

Fyrir utan sakamálið sem er fyrir rétti þá eru lántakar aðilar málsins. Í lögfræðingaliði þeirra er nú Eva Joly, sem áður var ráðgjafi þegar embætti sérstaks saksóknara var stofnað. Joly hefur gjörbreytt stöðu lántaka sökum þekkingar sinnar á málinu.

Björgólfur Guðmundsson var viðstaddur réttarhöldin í morgun þar sem átti að yfirheyra hann. Verjendur sakborninga tóku harkalega til varna og gagnrýndu hlutverk Joly, reyndar ekki í fyrsta skipti.

Þegar kom að því að Björgólfur átti að koma í vitnastúku var réttarhléi nýlokið. Verjendur hans báðu þá um tíu mínútna hlé sem dómarinn hafnaði. Þá stóðu verjendurnir allir upp og skunduðu út. Dómarinn trúði greinilega ekki sínum eigin augum og sagði að Björgólfur ætti ekki að yfirgefa salinn. Hann fylgdi þó lögmönnunum á dyr. Dómarinn sagði þá að gert yrði fimm mínútna hlé.

Þegar réttarhaldið hófst aftur voru lögmennirnir og Björgólfur mættir aftur í salinn. Dómarinn sagði þá að þetta framferði þeirra hefði verið tilkynnt réttum yfirvöldum og gæti haft afleiðingar.

Í samtali við Rúv í hádeginu sagði Eva Joly að á þrjátíu ára ferli sínum í frönsku réttarkerfi hefði hún aldrei orðið vitni að eða heyrt af því að lögfræðingar virtu orð dómara að vettugi. Þessi uppákoma er til marks um að það er mikil harka í málaferlunum, andstætt því sem var fyrir tveimur árum.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir