Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjóða fólki að gera hlé á afborgunum vegna veirunnar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnendur Arion banka hafa tekið þá ákvörðun að bjóða einstaklingum sem eru í viðskiptum við bankann að gera greiðsluhlé vegna COVID-19 veirunnar. Bankinn ætlar að koma til móts við þá sem sjá fram á erfiðleika við að standa skil á afborgunum íbúðalána vegna veirunnar, og gefa þeim kost á að gera hlé á afborgunum lána í allt að þrjá mánuði „til að auðvelda þeim að takast á við fyrirsjáanlegar áskoranir.“ Bæði Landsbankinn og Íslandsbanki hafa ákveðið að bjóða sambærilegar lausnir.

„Við teljum rétt að þessi valkostur sé til staðar fyrir þá sem sjá fram á breyttar aðstæður,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka. „Við höfum ekki orðið vör við þörf fyrir þetta hér og nú en ég held að það sé ágætt fyrr þá sem sjá fram á breyttar aðstæður að vita af þessum valkosti.“

Haraldur Guðni segir að ekkert gjald verði rukkað fyrir að fresta greiðslum, en þinglýsingargjald geti komið til. Í tilkynningu bankans segir að ef þörf sé á frekari sveigjanleika verði farið yfir málin með hverjum og einum viðskiptavini.

„Kostnaður við þetta til lengri tíma litið ætti ekki að vera neinn en tímabundið hefur þetta áhrif á greiðsluflæði til bankans. Það er eitthvað sem bankinn ræður mjög vel við,“ segir Haraldur Guðni.

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir í skriflegu svari til fréttastofu að bankinn muni „standa með viðskiptavinum sínum í gegnum þessa erfiðleika.“ Bankinn hafi „fjölbreytt úrræði, m.a. að gera hlé á greiðslum, og hvetjum fólk til að hafa samband ef það þarf að nýta sér úrræðin.“

Fordæmalausar aðstæður

Í hádeginu í dag sendi Íslandsbanki svo frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Vegna yfirstandandi COVID-19 faraldurs hefur Íslandsbanki gripið til margvíslegra ráðstafana til að tryggja órofna þjónustu við viðskiptavini ásamt því að draga úr líkindum á smiti í hópi starfsmanna og viðskiptavina sem sækja þjónustu til bankans. Bankinn er vel í stakk búinn til að takast á við aðstæður sem þessar og eru eigin- og lausafjárhlutföll bankans sterk. Starfsfólk bankans mun halda áfram að eiga í góðum samskiptum við viðskiptavini og leita lausna á meðan þessu tímabili stendur. Bankinn mun koma til móts við þarfir viðskiptavina, svo sem með því að bjóða frystingu afborgana útlána tímabundið hjá þeim viðskiptavinum, einstaklingum og fyrirtækjum, sem mest verða fyrir áhrifum af þessum fordæmalausu aðstæðum.“

Þá er þeim tilmælum beint til viðskiptavina bankans að nýta sér stafrænar þjónustur í stað þess að koma í útibú bankans.

Fréttin hefur verið uppfærð.