Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bjóða fermingarbörnum að fresta athöfn til haustsins

12.03.2020 - 06:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fermingarbörnum í Grafarvogskirkju og Háteigskirkju stendur til að boða að fresta fermingum sínum fram á haustið vegna útbreiðslu COVID-19 kórónaveirunnar. Líkt og fram hefur komið í fréttum hefur fólki í áhættuhópum, það er eldra fólki og fólki með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma verið ráðlagt að mæta ekki á fjölmenna mannfagnaði.

Pétur Georg Markan, samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar, telur líklegt að þessi valmöguleiki verði í boði í fleiri kirkjum. Hann segir að kirkjan fylgi leiðbeiningum Embættis landlæknis varðandi viðbrögð við útbreiðslu sjúkdómsins og að vel sé fylgst með þróun mála frá degi til dags. 

Ekki hafa neinar fermingarathafnir verið slegnar af og öll þau fermingarbörn sem vilja halda sig við upphaflegar áætlanir, um að fermast í vor, geta gert það, að sögn Péturs.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir