Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bjó í helli og giftist frægri söngkonu

Mynd: RÚV / RÚV

Bjó í helli og giftist frægri söngkonu

21.10.2017 - 12:20

Höfundar

Xi Jinping, forseti Kína, varði táningsárum sínum í helli í afskekktri sveit. Faðir hans var forystumaður í kommúnistaflokknum en lenti í ónáð hjá Maó formanni og var þvingaður í útlegð. Systir hans svipti sig lífi vegna ofsókna. Engu að síður var Xi staðráðinn í að ganga í flokkinn frá unga aldri.

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar um ævi eins valdamesta manns heims um þessar mundir, Xi Jinping, leiðtoga kínverska kommúnistaflokksins og forseta Kína. Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.

Faðirinn fangelsaður

Faðir forsetans, Xi Zhongxun, var einn af forystumönnum kínverska kommúnistaflokksins á fyrstu árum hans og mikilsvirtur herforingi.

Eftir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína 1949 fékk hann valdamikla stöðu í stjórnkerfinu en síðar kastaðist í kekki milli hans og Maó formanns, Xi Zhongxun var vikið úr flokknum og var að endingu sendur í fangelsi 1966.

Börn hans, Xi Jinping og systkini hans, fengu að kenna á því að faðir þeirra væri talinn andófsmaður og voru ofsótt af rauðum varðliðum, ofstækisfullum ungliðum sem gengu hvað harðast fram í menningarbyltingu Maós um þetta leyti.

Sendur í afskekkta sveit

Sagan segir að systir Xis hafi á endanum svipt sig lífi vegna ofsóknanna, en Xi Jinping slapp lifandi. Hann var árið 1968, fimmtán ára, sendur í lítið sveitaþorp í Shaanxi í miðju Kína að vinna.

Það var annar liður í menningarbyltingunni að senda borgarbörn út í sveitir landsins að kynnast lifnaðarháttum fátækrar alþýðunnar og vinna erfiðisvinnu. 

Xi Jinping bjó í fátæklegum helli með öðrum ungmennum næstu sjö árin og vann ýmis verk fyrir sveitunga sína.

Þó svo að aðbúnaðurinn hafi verið lítilfjörlegur og lífbaráttan erfið varð Xi staðráðinn í því á þessum árum, að eigin sögn, að ganga í kommúnistaflokkinn og ná þar frama — þrátt fyrir fjölskyldusögu sína.

Komst áfram með samböndum föður síns

Faðerni hans gerði honum erfitt fyrir, hann þurfti að sækja um ótal sinnum áður en hann hlaut loks inngöngu í flokkinn um tvítugt. Var það byrjunin á ferli sem átti eftir að leiða hann í hæstu hæðir kínversk samfélags.

Það var Xi til happs að eftir dauða Maós, á valdatíð Deng Xiaoping, fékk faðir hans að koma inn úr kuldanum og fékk áhrifastöðu í flokknum að nýju, varð héraðsstjóri í Guangdong. Faðir hans notaði svo sambönd sín óspart til að koma syninum á framfæri. 

Lengst af var Xi þó aðeins embættismaður í ýmsum sveitahéröðum Kína og vakti ekki mikla athygli. Hann var lengi þekktari fyrir að vera giftur frægri þjóðlagasöngkonu, Peng Liyuan, en sem stjórnmálamaður. Það átti þó eftir að breytast á 21. öldinni, þegar stjarna Xis reis sífellt hærra. 

Hlustið á allan þáttinn um ferið Xis í spilaranum hér að ofan. Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmörgnum klukkan 09:05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18:10

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Búist við að Xi Jinping auki völd sín