Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Bjarni vill gera umbætur á þingsköpum

15.05.2015 - 13:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, telur ljóst að gera þurfi verulegar umbætur á þingsköpum í þeim tilgangi að gera starf þingsins skilvirkara og auka afköst. Hann segist með þessu ekki vera að saka stjórnarandstöðuna um að gera annað en hann hefði mögulega gert við sömu aðstæður og sömu reglur.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Bjarna. Hart hefur verið deilt á Alþingi að undanförnu.

Þétt samstaða hefur myndast í málflutningi stjórnarandstöðunnar sem hefur með skipulögðum hætti rætt fundarstjórn forseta í þeim tilgangi að freista þess að dagskrá þingfundar verði breytt og að forseti taki rammaáætlun og breytingartillögur við hana af dagskrá.

Eftir rúman áratug á Alþingi er ég orðinn sannfærður um að það þarf að gera verulegar umbætur á þingsköpum í þeim...

Posted by Bjarni Benediktsson on 15. maí 2015

Bjarni segir á Facebook-síðu sinni að menn mali fram á nótt, taki marga þingdaga í að ræða tiltölulega einföld mál til að styrkja stöðu sína þegar dregur nær þinglokum. „Við erum í þessum sporum í dag. Einu sinni enn.“ Fjármálaráðherra tekur þó skýrt fram að hann sé ekki að saka stjórnarandstöðuna um að gera annað en hann hefði mögulega gert við sömu aðstæður.

Bjarni leggur til fjórar breytingar - að mál fái ákveðin takmarkaðan tíma til umræðu, völd forseta til að stjórna þingstörfum verði aukin, minnihlutavernd verði aukin og mál sem ekki tekst að ljúka á þingvetri lifi áfram innan kjörtímabils. „Með þessum breytingum myndum við færa þingstörfin nær því sem gerist víðast í kringum okkur. Það er ekkert eðlilegt við fyrirkomulag sem hefur hvata til að tefja og draga afgreiðslu allra mála þannig að semja þurfi að vori um þau mál sem ,,má" greiða atkvæði um,“ skrifar fjármálaráðherra.

Hann segir að Ísland sé tiltölulega fámenn þjóð og það eigi ekki að vera flóknara hér á landi en „hjá fjölmennari þjóðum að nota almanaksárið til að ljúka helstu lagabreytingum sem meirihluti er fyrir hjá lýðræðislega kjörnu þingi.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV