Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bjarni verður fjármálaráðherra

Mynd: Skjáskot / RÚV
„Ég held að flokksmenn hafi verið að vona að það væri gott jafnvægi í þessum stjórnarsáttmála. Það var gerður góður rómur að þeirri niðurstöðu,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, eftir að flokkráð samþykkti stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna. Bjarni verður fjármálaráðherra í ríkisstjórninni sem mynduð verður á morgun og snýr þar með aftur í ráðuneytið sem hann fór með kjörtímabilið 2013 til 2016.

Bjarni segir að formenn flokkanna þriggja hafi leitast við að láta jafnræði ríkja milli flokkanna í stjórnarsáttmálanum. „En líka verið að horfa inn í framtíðina og senda út skilaboð um að við ætlum að halda áfram að byggja upp þetta samfélag og það verða góðir tímar framundan. Þar held ég að hafi tekist vel til enda var gerður góður rómur að sáttmálanum.“

Fimm ráðherrar Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn fær fimm ráðherra í ríkisstjórn, Vinstri græn þrjá og Framsóknarflokkurinn aðra þrjá. Ekki verður tilkynnt um ráðherra fyrr en á morgun. Bjarni svaraði ekki hvert kynjahlutfallið yrði í ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins og þegar hann var spurður hvert hans hlutskipti yrði í ríkisstjórn var svarið svohljóðandi: „Eigum við ekki að bíða með það þangað til á morgun en ég get svo sem sagt þér að ég hef verið þar áður,“ sagði Bjarni sem hóf ráðherraferil sinn sem fjármálaráðherra áður en hann varð forsætisráðherra fyrr á þessu ári.

Rökrétt niðurstaða

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi og þingsætum í kosningum í haust. Bjarni játar því að mikið hafi verið undir að komast í ríkisstjórn. „Það er í sjálfu sér alltaf talsvert undir. Það voru vonbrigði fyrir okkur í Sjálfstæðisflokknum en þetta voru flókin úrslit ekki satt?“ Hann sagði að hvorki stjórnarandstaða né stjórn hefði staðið uppi sem sigurvegarar kosninganna. Þess í stað hefðu tveir nýir flokkar komið inn á þing. „Nýju flokkarnir komust aldrei í stjórnarmyndunarviðræður eini sinni.“

„Þessir þrír flokkar sem eru að mynda þessa ríkisstjórn, þetta eru flokkar sem eru að þingstyrk þrír stærstu flokkarnir. Það er enginn annar flokkur stærri en Framsóknarflokkurinn að þingstyrk. Frá þeim sjónarhóli séð er þetta nokkuð rökrétt.“

Fréttin verður uppfærð.