Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bjarni: Verður að velja og hafna

11.01.2017 - 12:17
Mynd: Skjáskot / RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Páll Magnússon, þingmaður flokksins, sé í fullum rétti að segja sína skoðun á valinu á ráðherrrum flokksins. „Mér finnst hann hafa gert það málefnalega með sama hætti og hann gerði við mig persónulega og ég veit að Páll er tilbúinn að taka þátt í styðja nýja ríkisstjórn.“

Páll sagði á Facebook-síðu sinni í morgun að hann hefði ekki greitt atkvæði með ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins. Hann var nokkuð hvass í færslu sinni og sagði ráðherravalið fela í sér lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði unnið sinn stærsta sigur í kosningunum.

Bjarni ræddi stuttlega við fréttamenn þegar hann mætti á síðasta ríkisráðsfund ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar á Bessastöðum í hádeginu. Hann sagðist spenntur fyrir nýrri ríkisstjórn - ekki síst í þessu fallega veðri.

Bjarni var spurður út í ummæli Páls í morgun og sagði hann vera í fullum rétti að segja sína skoðun. „Mér finnst hann hafa gert það málefnalega með sama hætti og hann gerði við mig persónulega og ég veit að Páll er tilbúinn að taka þátt í styðja nýja ríkisstjórn.“

Bjarni segist skilja vel að kjósendur flokksins í Suðurkjördæmi hafi viljað fá ráðherra - ekki síst vegna þess mikla stuðnings sem flokkurinn hefði fengið. „En það verður að velja og hafna og þetta var niðurstaðan.“