Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bjarni stígur til hliðar sem forstjóri OR

17.09.2018 - 18:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnarformaður Orku náttúrunnar, hefur óskað eftir því við formann stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Í tilkynningu Bjarna segir „Ég hef óskað eftir því við formann stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri á meðan þau mál sem komið hafa upp verða skoðuð og úttekt gerð á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins. Ég tel afar mikilvægt bæði í þágu starfsmanna og almennings að sú skoðun fari fram. Þar mega mínar ákvarðanir ekki vera undanskildar.“

Hann telur því rétt að víkja tímabundið frá, á meðan málið er skoðað. Í tilkynningunni segir að starfsfólk OR hafi lagt mikið á sig á síðustu árum við að byggja fyrirtækið á ný úr krappri stöðu. Sú vinna hafi ekki síst snúið að auknu jafnrétti kynjanna og bættri vinnustaðarmenningu. Áríðandi sé að halda þeirri mikilvægu vinnu áfram. 

Bjarna Má Júlíussyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, var vikið frá störfum í síðustu viku vegna óviðeigandi framkomu hans gagnvart samstarfsfólki sínu. Bjarni Bjarnason sagði í kjölfar brottrekstursins ekki geta farið nákvæmlega út í það hvers konar hegðun framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar hafi sýnt samstarfsfólki sínu að öðru leyti en því að það hafi verið mat stjórnar fyrirtækisins að hegðun hans hafi verið óviðeigandi. Stjórn Orkuveitunnar fundaði um málið í síðustu viku.

Bjarni sendi fjölmiðlum fyrr í dag tilkynningu þess efnis að hann hygðist ekki ræða um starfslok starfsfólks hjá Orku náttúrunnar frekar opinberlega að svo stöddu. Í þeirri tilkynningu sagðist Bjarna hafa borið skylda til að skýra frá ástæðu starfsloka framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar en opinberar umræður um málefni annars starfsfólks en æðsta stjórnanda gildi öðru máli.