Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Bjarni segir Bandaríkjamenn misbjóða sér

19.06.2014 - 18:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjármálaráðherra segir algjörlega fráleitt og að sér sé hreinlega misboðið að sjálfbærar hvalveiðar Íslendinga séu Bandaríkjamönnum tilefni til þess að draga mögulega úr samskiptum ríkjanna. Íslendingar hljóti að láta í sér heyra vegna þessa.

Bandaríkjastjórn hefur boðað til hafráðstefnunnar Our Ocean en bjóða ekki Íslendingum. Ástæðuna segja Bandaríkjamenn vera hvaleiðar Íslendinga.

„Mér þykir þetta mjög einkennilegt ekki síst vegna þess að Bandaríkjamenn bera sjálfir ábyrgð á dauða fjölmargra hvala og sjávarspendýra,“ segir Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, og vísar bæði til veiða Bandaríkjamanna og tilraunasprenginga.

Í apríl var greint frá því að Bandaríkjaforseti hefði með bréfi til bandaríkjaþings falið innanríkisráðuneyti sínu að endurskoða tvíhliða samstarf við Ísland. „Og það þykir mér líka mjög undarlegt að það geti verið tilefni til þess að breyta eitthvað samskiptum við Íslendinga, þessu frjálsu, friðsælu þjóð, að við stundum sjálfbærar hvalveiðar,“ segir Bjarni. „Við höfum ekki látið það hafa áhrif á samskipti okkar við Bandaríkjamenn að þar sé margt athugavert á seyði. Samanber t.d. dauðarefsingar og meðferð á stríðsföngum. Þeir hafa á síðastliðnum tveimur árum drepið fleiri en 60 dæmda glæpamenn og hafa lögleitt dauðarefsingu. Þetta höfum við ekki látið hafa áhrif á samskipti við þá. Þess vegna þykir mér það algjörlega fráleitt og mér er bara hreinlega misboðið að fá þau skilaboð frá þeim að sjálfbærar hvalveiðar okkar, sem eru langt innan allra vísindalegra viðmiða, skuli vera þeim tilefni til þess að viðra þá skoðun að mögulega draga eitthvað úr samskiptum við okkur.“

Bjarni bætir við að sem sjálfstæð þjóð og lýðræðisríki, hljóti Íslendingar að láta í sér heyra þegar svona sé talað til þeirra. Það hafi þó ekki verið ákveðið hvort ríkisstjórnin gefi frá sér yfirlýsingu um málið.

Þá segir Bjarni að allar hugmyndir um að beita Íslendinga viðskiptaþvingunum vegna hvalveiða séu algjörlega fráleitar.