Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bjarni og Ólöf hafa tengst aflandsfélögum

29.03.2016 - 19:02
Mynd með færslu
69% þeirra sem afstöðu taka í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 vilja að Bjarni Benediktsson segi af sér. 63% vilja að Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, geri það einnig. Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ólöf Nordal, innanríkisráðherra og varaformaður flokksins, hafa bæði tengst aflandsfélögum. Bjarni segist hafa talið að félagið Falson & Co. hafi verið skráð í Lúxemborg. Ólöf segir að félag sem Landsbankinn stofnaði fyrir eiginmann hennar, Tómas Má Sigurðsson, hafi aldrei verið notað. Hvorugt félagið mun lengur vera til. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svörum ráðherranna við fyrirspurn fréttastofu.

Tvær vikur eru í dag síðan Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra,  upplýsti á Facebook að hún ætti í útlöndum félagið Wintris sem héldi utan um fjölskylduarf hennar. Upplýst var daginn eftir að félagið er skráð á Bresku-Jómfrúaeyjum og lýsti um hálfs milljarðs króna kröfum í föllnu bankana.

Jóhannes Kr. Kristjánsson blaðamaður hefur um nokkurt skeið, ásamt Alþjóðasamtökum rannsóknarblaðamanna og þýska stórblaðinu Süddeutsche Zeitung, unnið að umfjöllun um tengsl íslenskra stjórnmálamanna og annarra áhrifamanna við aflandsfélög og skattaskjól.

Fréttastofa sendi í gærkvöld þessa fyrirspurn á alla þingmenn og ráðherra:

„Átt þú eða maki þinn, eða hefur átt, eignir eða hagsmuni í því sem í daglegu tali er nefnt aflandsfélag eða skattaskjól (til dæmis á Bresku-Jómfrúaeyjum)?

Um 60% þingmanna hafa þegar svarað spurningunni, en óskað var eftir að svar bærist í síðasta lagi á miðvikudag.

Tveir ráðherrar, Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal, sendu fréttastofu svar síðdegis. Fyrr í dag greindi Kastljós frá því að nöfn þriggja íslenskra ráðherra og fleira áhrifafólks í íslenskum stjórnmálum væru á listum yfir eigendur aflandsfélaga í skattaskjólum. Þetta mætti sjá í gögnum sem blaðamenn víðsvegar úr heiminum hefðu undir höndum. Sérstakur Kastljósþáttur verður sýndur á næstu dögum um málið.

Bjarni segir í svari sínu til fréttastofu að fyrir tíu árum, þegar hann var óbreyttur þingmaður hafi hann keypt, fyrir tæplega 40 milljónir króna, þriðjungshlut í eignarhaldsfélagi sem Landsbankinn í Lúxemborg hafi stofnað fyrir viðskiptafélaga hans, um kaup á fasteign í Dúbaí. Í svar Bjarna segir:

„Ég gerði grein fyrir kaupum á félaginu og niðurlagningu þess gagnvart íslenskum skattyfirvöldum og hef alla tíð staðið í þeirri trú að félagið ætti varnarþing í Lúxemborg.“

Bjarni segir að það hafi ekki verið fyrr en honum barst ábending frá erlendum blaðamanni að hann hafi komist að því að félagið, Falson & Co., var skráð á Seychelles-Eyjum í Indlandshafi, þekktu skattaskjóli. Bjarni segir að þetta hafi engin skattaleg áhrif.

Hann segir ennfremur að í þessu ljósi verði að skoða svör hans í Kastljósi 11. febrúar í fyrra, þar sem hann sagðist ekki hafa átt neinar eignir eða viðskipti í skattaskjólum.

„Þessi svör gaf ég eftir bestu vitund, enda taldi ég mig aldrei hafa átt neitt á aflandssvæði. Ég vil eins og aðrir hafa það sem sannara reynist og þykir þetta miður, en vil jafnframt ítreka að þessi viðskipti mín voru ekki í skattaskjóli, enda gefin upp á Íslandi.“

Bjarni segir að eini tilgangur Falson & Co. hafi verið að halda utan um eignina í Dúbaí, en svo hafi farið að þeir hafi aldrei tekið við henni. Hann segir að félagið hafi verið gert upp árið 2009 með tapi og það sett í afskráningarferli. Það hafi engar tekjur haft, ekkert skuldað eða tekið lán og enga starfsemi haft. Hægt er að lesa svar Bjarna í heild sinni hér til hliðar. 

Í svari Ólafar Nordal kemur fram að eiginmaður hennar, Tómas Már Sigurðsson, einn af æðstu stjórnendum álrisans Alcoa, hafi notið leiðsagnar hjá Landsbankanum síðari hluta ársins 2006 um fjármál og kaupréttarsamninga sem hafi verið hluti af starfskjörum Tómasar.

„Ráðgjafar Landsbankans lögðu til að stofnað yrði sérstakt erlent fjárfestingarfélag. Landsbankinn í Lúxemborg stofnaði félagið, Dooley Securities og var bankinn skráður eigandi þess.“

Ólöf segir að aldrei hafi komið til þess að eiginmaður hennar hafi nýtt félagið til fjárfestinga eða tæki yfir eignarhald þess.

„Félagið er því okkur hjónum óviðkomandi. Eftir því sem við komumst næst var félagið lagt niður árið 2008.“

Hvorki hún né eiginmaður hennar eigi eða hafi átt hlut í fjárfestingar- eða eignarhaldsfélögum sem skráð eru á Bresku-Jómfrúaeyjum eða í nokkru öðru landi sem talið sé til skattaskjóla. Yfirlýsingu Ólafar má lesa hér til hliðar. 

Fréttastofa óskaði í dag eftir viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Þeirri ósk var hafnað. Stjórnarandstaðan á Alþingi ætlaði að funda á morgun um mögulega vantrauststillögu gegn Sigmundi Davíð, en þing kemur saman eftir páskafrí mánudaginn 4. apríl. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur stjórnarandstaðan meðal annars beðið þessarar umfjöllunar um skattaskjól.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV