Ný ríkisstjórn tók við völdum eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum í dag. 11 ráðherrar taka sæti í ríkisstjórninni - sjö karlar og fjórar konur, sex frá Sjálfstæðisflokki, þrír frá Viðreisn og tveir frá Bjartri framtíð.
Bjarni segir að ríkisstjórnin muni halda sinn fyrsta fund á föstudaginn og næstu dagar fari í að skipuleggja dagana fram að þingi. Bjarni vísar gagnrýni á stjórnarsáttmálann á bug - það sé gott jafnvægi í honum og hann tali vel inn í ástandið.
Ríkisstjórnin heldur sinn fyrst fund á föstudaginn og síðan skipuleggja dagana fram að þingi. Bjarni segir gott jafnvægi í stjórnarsáttmálanum, hann tali vel inní ástandið á Íslandi þar sem lögð sé áhersla á uppbyggingu innviða. „Þetta er góður grunnur fyrir nýja ríkisstjórn.“
Bjarni sagðist ekki hafa hugsað með hvaða hætti Sjálfstæðisflokkurinn hefði gefið eftir. Mikilvægt væri að nýta meðbyrinn í efnahagsmálum en líka varðveita ávinninginn í samvinnu við vinnumarkaðinn og sækja fram á forsendum stöðugleika og jafnvægis, búa í haginn fyrir framtíðina og byggja upp á sviði heilbrigðisþjónustu, menntamála og samgöngumála. „Ég er ekki upptekinn af því hvar flokkarnir rákust hver utan í annan - tækifærin eru það mörg.“
Bjarni sagðist ætla að endurvinna traust stjórnarandstöðunnar með nýju verklagi og hvernig ný stjórn nálgaðist sín mál. „Ég hef trú á því að það sé hægt að ná málamiðlunum í stórum málum.“ Forsætisráðherra nefnir endurskoðun peningastefnunnar og stjórnarskrármálið sem dæmi um mál þar sem hægt sé að mynda sátt.
Bjarni bindur jafnframt vonir við nýjan forseta Alþingis, Unni Brá Konráðsdóttur. „Ég hef fulla trú á því að það geti tekist sátt um þau mál sem eðlilegt er að sátt geti tekist. En svo er ekkert að því að menn takist á um önnur mál enda eru menn ekki allir í sama flokknum.“