Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Bjarni: „Eins og að ferðast um í völundarhúsi“

01.12.2016 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjáfstæðisflokksins, hefur orðið fyrir vonbrigðum að ekki skuli hafa náðst meiri árangur í myndun nýrrar ríkisstjórnar nú þegar mánuður er liðinn frá kosningum.„Manni hefur á köflum liðið eins og maður væri að ferðast um í völundarhúsi,“ segir hann. Það sé hans skoðun að það eigi að skoða möguleikana sem séu á borðinu um myndun þriggja flokka stjórnar áður en reyndur sé margra flokka meirihluta. „En kannski sjá aðrir þetta öðruvísi.“

Bjarni og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, ákváðu í dag að hefja ekki formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Katrín sagði að það væri einfaldlega of langt á milli þessara tveggja flokka en samtalið milli þeirra hefði verið gott og jákvætt og gott veganesti upp á framhaldið.

Undir þetta  tekur Bjarni í samtali við fréttastofu nú síðdegis. „Mér fannst mikilvægt og held að við Katrín séum sammála um það að það var rétt ákvörðun að eiga þetta samtal og það var gagn af því fyrir báða flokka. En þegar upp var staðið var það fyrst og fremst á málefnalegum forsendum erfitt að sjá að við ættum erindi í formlegar viðræður.“

Bjarni segir ekki gott að segja til um framhaldið. „En línur hafa skýrst um marga hluti á þessum mánuði sem liðin er frá þingkosningunum. Í fyrsta lagi hafa menn útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn saman. Í öðru lagi er þetta niðurstaðan eftir þreifingar milli okkar og Vinstri grænna. Ég gat séð það fyrir mér að við myndum setjast niður með Viðreisn og Bjartri framtíð og láta aftur reyna á  þriggja flokka samstarf. En mér sýnist þeir vera áhugasamari um að fara í fimm flokka viðræður. Og á meðan er ég ekki í viðræðum við aðra flokka.“

Bjarni bendir síðan á að þing komi saman í næstu viku og þá þurfi flokkarnir að ræða saman hvernig haldið verði á þingstörfunum við þær aðstæður sem séu uppi núna og verði uppi þá. Fram kom í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu að þing yrði sett 6. desember. 

Bjarna líst illa á hugmynd um myndun breiðra þjóðstjórnar - hugmynd sem Katrín viðraði í samtali við fréttastofu fyrr í dag. „Á meðan Björt framtíð og Viðreisn hafa ekki útilokað þriggja flokka stjórn þá finnst mér að það eigi að láta reyna á þann kost frekar. Og það er dapurlegt fyrir okkur, við þær fínu aðstæður, að komast að þeirri niðurstöðu að eina leiðin sé að mynda einhvers konar þjóðstjórn. Slíku er ekki komið á nema sem einhverju bráðabirgðaástandi áður en boðað er til kosninga.“

Bjarni segist hafa orðið fyrir vonbrigðum að flokkarnir skuli ekki hafa náð lengra. „Manni hefur á köflum liðið eins og maður væri að ferðast um í völundarhúsi. Ég held að það sé samt leið út úr þessu - það eru enn á borðinu á möguleikar á þriggja flokka stjórnum sem mér finnst að menn eigi að láta reyna á áður en það verður reynd margra flokka stjórn. En það er auðvitað bara mín skoðun og kannski sjá aðrir þetta öðruvísi.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV