Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Bjarni dæmdur í 6 mánaða skilorð

28.06.2013 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Ármannsson, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, var dæmdur í 6 mánaða skilorð í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun fyrir meiriháttar skattalagabrot.

Í dómsorði er Bjarna gert að greiða 35.850.000 króna sekt til ríkissjóðs. 8 mánaða fangelsi kemur í stað sektar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.

Bjarni er dæmdur fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum á árunum 2007 - 2009. Samkvæmt ákæru lét hann undir höfuð leggjast að telja fram söluhagnað upp á tæpar 200 milljónir vegna tekjuársins 2006 vegna sölu á hlutabréfum. Einnig að hafa ekki talið fram arðgreiðslur af erlendum hlutabréfum fyrir ríflega 1,5 milljón vegna tekjuáranna 2006 og 2007, vaxtatekjur vegna tekjuáranna 2006 og 2007 og aðrar tekjur. Vantaldar fjármagnstekjur eru samkvæmt dómnum ríflega 200 milljónir og vangreiddur fjármagnstekjuskattur ríflega 20 milljónir. 

Bjarni neitar sök í málinu en viðurkennir að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur. Hann telur að málinu hefði átt að ljúka með úrskurði ríkisskattstjóra.