Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Bjarni Ármannsson ákærður fyrir skattsvik

04.02.2013 - 16:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Sérstakur saksóknari hefur ákært Bjarna Ármannsson, fyrrverandi forstjóra Glitnis, fyrir meiriháttar skattalagabrot á árunum 2006 til 2008. Alls er um að ræða vanframtaldar fjármagnstekjur upp á tæpar 205 milljónir króna og þar af leiðandi 20,5 milljónir í vangreiddan fjármagnstekjuskatt.

Sérstakur saksóknari ákærði Bjarna fyrir að vantelja 197 milljóna króna söluhagnað vegna sölu á hlutabréfum í félaginu Sjávarsýn árið 2006 og koma sér þannig hjá greiðslu 20 milljóna króna í skatta. Jafnframt er Bjarna gefið að sök að hafa ekki talið fram gengishagnað af 36 gjaldmiðlasamningum og þannig vantalið sex milljóna króna fjármagnstekjur sem hann hefði átt að greiða af 600 þúsund krónur í skatta. Viðskiptablaðið greindi fyrst frá ákærunni, fréttastofa hefur fengið ákæruna staðfesta.

Bjarni Ármannsson segir í yfirlýsingu að mistök hafi orðið þess valdandi að tekjur sem um ræðir hefðu ekki verið taldar fram. Því hafi hann greitt skattana með tilheyrandi álagi þegar það hafi komið í ljós. Hann segist hins vegar undrast að málið hafi leitt til ákæru í ljósi þess að hann hafi leiðrétt mistökin og gert upp skattaskuldina.