Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Bjarni áfram formaður

Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að halda áfram formennsku í flokknum. Hann greindi frá þessari ákvörðun sinni á kosningafundi Sjálfstæðisflokksins í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ.

Bjarni lýsti því yfir í þættinum Forystusætinu í Sjónvarpinu á fimmtudagskvöld að hann væri að íhuga stöðu sína sem formaður flokksins, en sagðist ekki vilja taka alla sökina á slæmu gengi. Hins vegar sé óviðunandi að fylgi sé flokksins sé komið niður fyrir það sem það var skömmu eftir hrun. Þá sagði hann að könnun Viðskiptablaðsins sem sýndi aukið fylgi við flokkinn ef Hanna Birna Kristjánsdóttir yrði formaður, hefði ýtt við sér. 

Menn höfðu beðið fundarins í Garðabæ í dag með mikilli eftirvæntingu frá því í gær, þar sem talið var að nú myndi Bjarni kveða upp úr um framtíð sína. Það gerði hann, sagðist myndu halda áfram og hvatti flokksmenn til að standa saman.

„Ég, eins og sjálfstæðismenn allir, hef óbilandi trú á íslensku þjóðinni og möguleikum hennar inn í framtíðina. Við getum vel gert þetta saman, við getum gert betur, við getum sótt fram. Við getum styrkt stöðuna svo mikið ef við bara notum tímann vel og skynsamlega og berum gæfu til þess að standa saman sem einn maður í Sjálfstæðisflokknum,“ sagði Bjarni.