Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bjargráðasjóður bætir ekki tjón á vegi

29.05.2016 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir
Bjargráðasjóður, sem á að bæta tjón sem verður á túnum og búfé hjá bændum, bætir ekki tjón á vegi sem þarf að fara til að komast að túnunum. Bóndi í Skaftártungu sér fram á að tapa fjórðungi af heyi sínu þar sem vegur að túnum sem hann hefur nýtt rofnaði í Skaftárhlaupi.

Í fréttum RÚV í gærkvöld kom fram að Pétur Davíð Sigurðsson bóndi í Búlandi í Skaftártungu sæi fram á að missa fjórðung af sínu heyi þar sem vegur að túnum sem hann nýtti rofnaði í Skaftárhlaupi, og hann kemst þar með ekki að túnunum. Hann bíður nú eftir svari frá sveitarfélaginu um hvort þetta tjón fáist bætt, en þegar hafa komið þrjátíu milljónir frá ríkinu til að bæta tjón sem aðrir bæta ekki.

Bjargráðasjóður, sem er í eigu bæði ríkisins og Bændasamtakanna, hefur það hlutverk meðal annars að bæta einstaklingum beint tjón af völdum náttúruhamfara, og einnig uppskerutjón vegna sjúkdóma, óvenjulegs veðurfars og slysa.  

Anton Torfi Bergsson framkvæmdastjóri sjóðsins sagði í samtali við fréttastofu að engin formleg ákvörðun hefði verið tekin um bætur vegna þessa tiltekna vegar. Hins vegar hafi fulltrúar sjóðsins haldið fund með fulltrúum sveitarfélagsins og komist að raun um að Bjargráðasjóður ætti ekki, samkvæmt lögum um sjóðinn, að bæta þetta tjón. Ástæðan væri sú að sjóðurinn bætti aðeins beint tjón á túnunum sjálfum en í þessu tilviki væri það vegurinn að túnunum sem væri rofinn. 

Anton Torfi segir að vera kynni að þetta tjón félli undir nýjan hamfarasjóð, sem tilkynnt var um í febrúar að til stæði að stofna. Það hefur ekki verið gert ennþá, eftir því sem fréttastofa kemst næst. Sá sjóður myndi hins vegar ekki bæta tjón aftur í tímann, og því ljóst að sérstaka ákvörðun þarf til að bæta tjónið á þessum umrædda vegi.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV