Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bjarg reisir 33 leiguíbúðir á Akranesi

04.10.2018 - 11:37
Akranes, Vesturland, H0fn, höfnin, sílóin, síló, Faxaflói.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Fyrsta skóflustunga var tekin á Akranesi í morgun að rúmlega 30 nýjum leiguíbúðum sem Bjarg íbúðafélag, sem ASÍ og BSRB stofnuðu, ætlar að byggja þar. Í tilkynningu kemur fram að gert sé ráð fyrir að fyrstu íbúðirnar verði afhentar til leigenda í byrjun júní á næsta ári.

Samkomulag hefur sömuleiðis verið gert við Akraneskaupstað um að þeir fái til ráðstöfunar fjórðung íbúðanna. Til þess að ná fram lágu leiguverði var meðal annars horft til fermetrafjölda, segir í tilkynningu. Íbúðirnar verða allt frá 40 fermetra stúdíóíbúðum til rúmlega 90 fermetra fjögurra herbergja íbúða.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd

 

Íbúðafélagið Bjarg er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Í tilkynningunni kemur fram að stefnt sé á byggingu um 1.400 leiguíbúða á næstu fjórum árum. Tæplega 240 íbúðir séu nú í byggingu og um 430 á hönnunarstigi.

Þá kemur fram í tilkynningunni að framlög hafi þegar verið veitt til félagsins til uppbyggingar á 668 íbúðum í Reykjavík, Hafnarfirði, Akranesi, Akureyri, Þorlákshöfn og Sandgerði og að rætt hafi verið við fleiri sveitarfélög.